Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að spáð sé vaxandi vindi og ofankomu á svæðinu frá Skaga og austur að Vopnafirði í kvöld. Því megi búast við versnandi færð og slæmu skyggni. Skafrenningur verði líklega viðvarandi bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.
Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að það sé hálka á Sandskeiði og hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum.
Á Suðurlandi er annars hálka, hálkublettir eða snjóþekja.
Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Snjóþekja er á Suðurstrandavegi.
Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á öllum aðalleiðum.
Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum. Þungfært og snjókoma er á Klettshálsi. Hálka eða snjóþekja er á öðrum leiðum og sumstaðar skafrenningur.
Norðanlands er snjóþekja og snjókoma eða skafrenningur á flestum leiðum. Hálka á Öxnadalsheiði en snjóþekja og snjókoma á Víkurskarði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þverárfjalli, Vatnsskarði og á Hólasandi.
Á Austurlandi er snjóþekja og skafrenningur á Fagradal, annars er hálka á öllum öðrum leiðum. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi.
Á Suðausturlandi er hálka.