„Ég myndi ekki styðja slíka tillögu. Ég greiddi atkvæði gegn því á sínum tíma að senda nokkurt þeirra fyrir landsdóm. Síðan tók Alþingi og meirihluti þess þessa ákvörðun og nú eru þessi málaferli í fullum gangi. Mér finnst þingið ekki geta stigið inn í það,“ segir Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, spurður um afstöðu sína til landsdómstillögunnar.
Róbert vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið á þessu stigi en eins og ítarlega hefur verið fjallað um á fréttavef Morgunblaðsins undirbúa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tillögu um að falla beri frá ákærum á hendur Geir H. Haarde í landsdómsmálinu.