Fundaði með Fjárfestingarstofu

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Talsmaður kínverska fjárfestisins Huangs Nubos á Íslandi fundaði í dag með forstöðumanni Fjárfestingarstofu Íslands vegna mögulegra fjárfestinga Huangs á Íslandi.

Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs, segir í samtali við mbl.is að það sé misskilningur sem fram komi í grein Financial Times í dag að fulltrúar Huangs hafi fundað í iðnaðarráðuneytinu.

„Ég hitti Þórð [H. Hilmarsson] hjá Fjárfestingarstofu. Við vorum að ræða þessi mál,“ segir Halldór í samtali við mbl.is og bætir því við að Fjárfestingarstofa vinni að málinu fyrir hönd ráðuneytisins. Aðspurður segir Halldór að engin niðurstaða hafi legið fyrir að fundinum loknum, sem hann segir að hafi verið vinnufundur.

Fram kemur í frétt Financial Times í dag að unnið sé að því að endurskilgreina fjárfestingar Zhongkuns, sem er fyrirtæki Huangs, þannig að það muni koma í hlut annars ráðuneytis en innanríkisráðuneytisins að leggja blessun sína yfir þær.

Þreifingar í gangi

„Katrín [Júlíusdóttir iðnaðarráðherra] steig fram og kallaði eftir því að Fjárfestingarstofa færi í málið fyrir þeirra hönd til að kanna möguleika á einhverskonar fjárfestingarsamningi. Það hefur komið fram þessi hugmynd um einhverskonar leigu á landi, þó að það sé ekki búið að útfæra þá tillögu fyrir okkur hvernig hún gæti verið,“ segir Halldór og bætir við að Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi m.a. lýst því yfir að ríkið eigi að kaupa jörðina.

„Það eru ýmsir búnir að lýsa ýmsu yfir, en það er ekki komin fram nein formleg tillaga ennþá. Það eru þreifingar í gangi,“ segir Halldór. Viðræður séu á viðkvæmu stigi.

Menn ræði nú hvaða fjárfestingarmöguleikar séu fyrir hendi út frá íslenskum lögum. „Það liggur fyrir að Huang Nubo hefur ekki neinn áhuga á að fara neina Magma-leið. Hann er búinn að lýsa því yfir ítrekað,“ segir Halldór.

Aðspurður segir hann að menn bíði nú eftir að heyra hugmyndir iðnaðarráðuneytisins og hvað það hafi til málanna að leggja. Það sé alveg ljóst að Huang muni ekki bíða endalaust því margir sýni fjárfestingum hans áhuga, m.a. Danir og Finnar.

Vonast eftir fundi með ráðherra

„Hann er fyrst og fremst ennþá í þessu vegna vinskapar við íslenska aðila, sem hafa sagt honum að þó að ákveðin öfl séu andstæð hans hugmyndum þá séu það ekki allir,“ segir Halldór.

Aðspurður segir Halldór að iðnaðarráðherra sé ekki búinn að boða Huang eða fulltrúa hans á fund í ráðuneytinu. „Vonandi verður það en það er ekki búið að bjóða okkur.“

„Mönnum hlýtur að vera mikil alvara fyrst að ráðherra og virtir þingmenn eru að lýsa því yfir að þeir vilji að þessir hlutir séu skoðaðir ofan í kjölfinn. Þá hljótum við að trúa því að það sé verið að gera það, og bíðum bara spenntir,“ segir Halldór að lokum.

Huang fundar um fjárfestingar á Íslandi 

Enginn fundur í iðnaðarráðuneytinu 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert