Þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag, hvers vegna forgangsröð hafi verið breytt í nýrri samgönguáætlun og ekki sé gert ráð fyrir Norðfjarðargöngum á næstu árum. Innanríkisráðherra sagði að stjórnvöld yrðu að sýna raunsæi og ráðdeild og hætta að lofa upp í ermina á sér.
„Það er búið að lofa því aftur og aftur og aftur að Norðfjarðargöng séu í raun og veru það sem við munum fá gegn því að vera tilbúin til að vinna saman. Konur á Fljótsdalshéraði og í Seyðisfirði voru tilbúnar til að leggja af fæðingarþjónustu á þeim stöðum vegna þess að lofað var samgöngubótum, lofað Norðfjarðargöngum í áratugi. Fjórðungssjúkrahúsið okkar er handan við handónýt jarðgöng. Konur frá Seyðisfirði þurfa að fara yfir tvo hæstu fjallvegi landsins til að fjölga sér,“ sagði Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem býr á Egilsstöðum.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði að stjórnvöld væru hætt að lofa upp í ermina á sér í samgöngumálum. „Það er grundvallaratriði að við sýnum raunsæi og fyrirhyggju, að við höfum þá fjármuni til ráðstöfunar sem við erum að lofa að verja í framkvæmdir,“ sagði Ögmundur.
Hann bætti við að forsendur frá síðustu samgönguáætlun stæðust að sjálfsögðu ekki vegna þess að hér varð bankahrun. Forsendur nýrrar áætlunar byggðist á núverandi aðstæðum.
„Ég hef alla tíð sagt að Norðfjarðargöng eru mjög brýn," sagði Ögmundur. En í samgöngumálum væri grundvallaratriði að fólk komist á milli svæða og þar séu Vestfirðir langverst staddir. Því væri gert ráð fyrir að hlutfallslega mestu fjármagni verði varið til framkvæmda á Vestfjörðum.
Þá sagði Ögmundur að þingmenn virtust telja að þeir stæðu sig afskaplega vel í hagsmunagæslu fyrir sína umbjóðendur með því að „tala upp móralinn“ á viðkomandi svæðum.
„Mér finnst þetta ekki rétt nálgun og mér finnst hún í rauninni ekki sæmandi. Við erum ekki með þessa fjármuni til ráðstöfunar. Við erum að reyna að verja þeim takmörkuðu fjármunum, sem við höfum, eins vel og við mögulega getum til heilbrigðisstofnana, til velferðarkerfisins, almannatrygginga, til að tryggja kjör öryrkja og atvinnulausra og þeirra sem hafa minnstu úr að spila í þjóðfélaginu. Þetta erum við að fást við á þinginu,“ sagði Ögmundur.