Að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins munu hækkanir á sköttum og gjöldum hins opinbera, eins og þær birtast í bandorminum svonefnda hækka vísitölu neysluverðs um 0,2% á næsta ári.
Að sama skapi mun kaupmáttur ráðstöfunartekna minnka um 0,2%. Með þessu munu íbúðalán landsmanna hækka samanlagt um 3-4 milljarða króna, þannig gæti höfuðstóll 10 milljóna króna láns hækkað um 200 þúsund.
Að óbreyttu munu því ýmis gjöld hækka um áramótin, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.. Með hækkun bensín-, olíu- og kolefnisgjalds telur FÍB að bensínlítrinn muni hækka um 3,50 krónur. Þá mun áfengis- og tóbaksgjald hækka um 5,1%. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR gæti það þýtt hækkun á kartoni af sígarettum um 3,5% og vodkaflaska gæti hækkað um 4,3%, að því gefnu að aðrir þættir en áfengisgjald haldist óbreyttir. Bjórdós, 500 ml., gæti hækkað um 2,7%, rauðvínsflaska um allt að 2,8% og rauðvínskassi um 3,8%.
Skattar og gjöld á áfengi, tóbaki og eldsneyti hafa hækkað um allt að 68% frá hruni, eða langt umfram verðlag.
Leiðrétt: Höfuðstóll hækkar um 20 þúsund kr
Vegna þess sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins í dag, og fram kemur hér að ofan, þá skal það leiðrétt að höfuðstóll af 10 milljóna króna íbúðaláni hækkar um 20 þúsund krónur, ekki 200 þúsund. Eftir sem áður er talið að íbúðalán landsmanna í heild sinni hækki um 3-4 milljarða króna vegna áhrifa bandormsins.