Að bragða íslenskt brennivín var annar af tveim lágpunktum Íslandsferðar blaðakonunnar Caroline Morse til Íslands. Morse var ekki hrifin af drykknum heldur kýs miklu fremur íslenska bjórinn. Hinn lágpunkturinn var að sjá ekki norðurljósin á næturhimninum.
Vel hefur gengið að halda þeirri goðsögn að erlendum ferðamönnum að brennivín sé vinsæll drykkur á Íslandi. Ekki eru þó allir hrifnir eins og skrif Morse á vefinn smarttravel.com bera með sér.
Athygli vekur að Morse tekur fram að matur sé dýr á Íslandi og því borgi sig að troða sig út á morgnana og láta eina máltíð um kvöldið duga.
Hún skrifar að það hafi verið ótrúleg lífsreynsla að svamla í Bláa lóninu í snjókomu og sjá aðeins mistrið sem reis upp frá lóninu.