Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að það væri mjög ómaklegt að rætt væri innan Evrópusambandsins um leiðir til að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna deilna um makrílveiðar.
Hún sagði hins vegar óeðlilegt, að þessu máli væri blandað saman við aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið.
Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem spurði með hvaða hætti verði formlega brugðist við því, að Evrópusambandið sé að ræða um hugsanlegar refsiaðgerðir í fullri alvöru. Jóhanna sagði að tekið yrði á því af fullri festu ef til þess kæmi að refsiaðgerðum yrði beitt.
Hann spurði hvort ekki væri óeðlilegt að á sama tíma og ESB væri að undirbúa refsiaðgerðir gengju Íslendingar svipugöngin í aðildarviðræðum. Jóhanna sagði, að makrílmálið hefði ekkert truflað þær viðræður.