Reykjavíkurborg og Samtökin '78 hafa undirritað samstarfssamning til þriggja ára og tekur hann gildi 1. janúar 2012. Með samningnum skuldbinda Samtökin '78 sig til þjónustu við hinsegin fólk í Reykjavík ásamt fræðslu í skólum og til fagstétta borgarinnar.
Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að styrkurinn nemi 2,5 milljónum króna á ári samningstímann á enda.
Markmið fræðslunnar sé að upplýsa hvað í því felist að vera samkynhneigð, tvíkynhneigð eða transgender manneskja og hvernig beri að nálgast þennan þátt lífsins á ábyrgan hátt.
Haft er eftir Árna Grétari Jóhannssyni, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, að samningurinn sé fagnaðarefni. Fjárhæðin komi til með að tryggja og efla starfsemi Samtakanna næstu árin.