Umsvifin 230 milljarðar

Ferðamenn í Almannagjá.
Ferðamenn í Almannagjá.

Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu árið 2009 námu ríflega 230 milljörðum króna eða sem svarar rúmlega 15% af vergri landsframleiðslu og er þá búið að áætla umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Þetta kemur fram í Hagtíðindum um ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2009–2011 sem Hagstofa Íslands hefur gefið út.

Landsframleiðsla frá framleiðsluhlið dróst saman um 7,9% árið 2009 en ferðaþjónusta nokkru minna, um 6,8%, sem skýrir 1,3% hærra hlutfall greinarinnar í vergri landsframleiðslu árið 2009.

Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2009 var rúmlega 184 milljarðar króna eða sem svarar rúmlega 12,3% af vergri landsframleiðslu. Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru rúmir 111 milljarðar, ferðaneysla heimila var um 64 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila námu um átta milljörðum króna.

Um 61% af umsvifum innlendrar ferðaþjónustu á árinu 2009 má rekja til erlendra ferðamanna sem er tæplega 6% hærra hlutfall en á árinu 2008. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 53% þannig að vægi þeirra í innanlandsferðaþjónustu hefur aukist nokkuð.

Um 8.500 manns störfuðu við ferðaþjónustu árið 2009

Árið 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 158 milljarðar króna. Þar eru meðtalin umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands nam rúmum 111 milljörðum króna en rúmir 46 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands.

Árið 2009 er áætlað að tæplega 8.500 manns hafi starfað við ferðaþjónustu, um 5,2% af störfum alls. Vöru- og þjónustuskattar af ferðaþjónustu námu rúmum 13 milljörðum króna árið 2009. Gera má ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hafi verið liðlega 117 milljarðar króna á árinu 2010 eða rúmlega 5% hærri en á árinu 2009.

Á tímabilinu janúar til júní 2011 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem fara frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar um tæplega 21%. Á sama tíma má gera ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hér innanlands hafi aukist um tæp 16%.

Lítil sem engin fjölgun ferðamanna á síðasta ári

Alþjóðlega fjármálakreppan og afturkippur í efnahag heimsins setti svip sinn á
ferðaþjónustu í heiminum árið 2009. Íslensk ferðaþjónusta fór ekki varhluta af
þessari þróun þó að erlendum ferðamönnum hafi fækkað minna hér á landi (1,6%)
en í Evrópu almennt þar sem erlendum gestum fækkaði um 4,9% milli ára.

Ferðaþjónusta í Evrópu rétti úr kútnum árið 2010 en þá fjölgaði erlendum ferðamönnum
í álfunni um 3,2%. Á sama tíma var nánast engin fjölgun á Íslandi. Árið 2010 hafði
gosið í Eyjafjallajökli neikvæð áhrif á greinina til skamms tíma en vakti jafnframt
athygli á landi og þjóð.

Vísbendingar eru um að vöxtur í ferðaþjónustu verði umtalsvert meiri á Íslandi ef horft er til fjölda erlendra ferðamanna (14%) á árinu 2011 en annars staðar í Evrópu (5–6%) ef spár Alþjóðaferðamálastofnunarinnar ganga eftir. Gera má ráð fyrir því að fjöldi erlendra ferðamanna á árinu 2011 verði um 540 þúsund. Ef ferðamönnum sem koma með skemmtiferðaskipum er bætt við má búast við að fjöldi þeirra verði tvisvar sinnum fleiri en íbúafjöldi landsins.

Áhrif efnahagshrunsins árið 2008 hafði mikil áhrif á ferðahegðun Íslendinga innanlands og erlendis árin 2009 og 2010 en tiltækar upplýsingar sýna að ferðaneysla Íslendinga tekur kröftuglega við sér á árinu 2011.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert