Jóhanna Sigurðardóttir sagðist á Alþingi í dag vera sammála Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, um að vel hefði verið haldið á Icesave-málinu að undanförnu hjá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hins vegar væru fordæmi fyrir því að utanríkisráðherra fari með mál fyrir EFTA-dómstólnum.
Sigmundur Davíð sagðist vilja hrósa Jóhönnu fyrir afdráttarlaus og skýr viðbrögð í gær við áformum Eftirlitsstofnunar EFTA um að senda Icesave-málið til EFTA-dómstólsins. Spurði hann Jóhönnu hvort hún væri ekki sammála um að vel hefði verið unnið að málinu í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu að undanförnu og hvort ekki væri æskilegt að málið verði áfram á forræði þess ráðuneytis eftir að það fer fyrir dómstólinn.
Jóhanna sagði að Árni Páll hefði staðið sig með stakri prýði. En stjórnvöld væru nú að skoða hvar forsvar þessa máls ætti að vera þegar það kemur fyrir EFTA-dómstólinn og í þeim 10-12 tilvikum þegar málum varðandi Ísland hefur verið vísað til dómstólsins frá árinu 1994 hafi utanríkisráðherra verið falið forsvarið. „Ég geri ráð fyrir að við munum hafa málið í svipuðum farvegi en ég undirstrika að það á eftir að ræða þetta,“ sagði Jóhanna.
Hún sagði að hvar sem forsvarið verður muni fjórir ráðherrar koma að málinu: forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra. Undirbúningur sé að hefjast í dag og farið verði yfir málið með sérfræðingum. Þá verði haft samráð við stjórnarandstöðu og utanríkismálanefnd Alþingis um framganginn allan tímann „því við þurfum sannarlega á því að halda að sýna góða samstöðu í þessu máli“.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist einnig vilja hrósa Jóhönnu fyrir skýr orð um að sýna verði samstöðu í málsvörn þjóðarinnar í Icesave-málinu. Þá yrði að segja það Árna Páli Árnasyni til hróss, að eftir að niðurstaða síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave lá fyrir hefði Árni Páll ekki aðeins virkjað ólíka stjórnmálaflokka heldur einnig þá aðila, sem voru mjög andvígir Icesave-samkomulaginu á sínum tíma, „og er það vel,“ sagði hún.
Þorgerður Katrín spurði hvers vegna Jóhanna gæti ekki kveðið skýrt upp úr um að Árni Páll hefði forræði á málinu. „Af fenginni reynslu sjáum við að aðrir ráðherrar hafa ekki farið hönduglega með forræði Icesave-málsins. Við treystum því að þau vinnubrögð, sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefur sýnt, verði viðhöfð,“ sagði Þorgerður.
Jóhanna sagðist vera ósammála um að aðrir ráðherrar hefðu höndlað Icesave-málið óhönduglega. Þannig hefði fjármálaráðherra staðið sig einstaklega vel í málinu og lagt sig mjög fram um það að hafa hagsmuni Íslands í fyrirrúmi.
Þorgerður Katrín spurði einnig hvort ekki væri ljóst, að fyrirhuguð uppstokkun í ríkisstjórninni myndi veikja stöðu Íslands í Icesave-málinu ef Árni Páll myndi víkja úr stjórninni. Jóhanna sagðist ekki myndi gefa svör úr ræðustóli Alþingis um hugsanlega uppstokkun í ríkistjórninni.