Vilja stofna lánatryggingasjóð ungs fólks

mbl.is / Hjörtur

Reykjavíkurborg vill setja á fót lánatryggingasjóði ungs fólks og frumkvöðla í samvinnu við stjórnvöld og hugsanlega lánastofnanir. Fyrirmyndin að þessu verkefni er Lánatryggingasjóður kvenna.

Þetta kemur fram í drögum að nýrri atvinnustefnu Reykjavíkurborgar sem send hefur verið til umsagnar hjá fjölmörgum hagsmunaaðilum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík stefna er mótuð. Yfirskriftin atvinnustefnunnar er „Skapandi borg“.

Í fréttatilkynningu segir að lykilmarkmið atvinnustefnunnar séu að Reykjavíkurborg stuðli að góðum skilyrðum fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja, með sérstakri áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki. Þá er lögð áhersla á að skapa vaxtarskilyrði fyrir fjölbreytt, umhverfisvænt og skapandi atvinnulíf sem mæti þörfum beggja kynja. Lagt er til að komið verði á hagkvæmu skipulagi og sérhæfingu atvinnusvæða sem stuðli að myndun klasa í greinum á lykilsvæðum þar sem sóknarfæri eru í atvinnulífi.

Gert er ráð fyrir að borgin taki upp samstarf við fjárfesta til að stuðla að fjölbreyttum húsnæðismarkaði í Reykjavík. Þá verði ástunduð markviss opinber fjárfesting til að bæta lífsgæði, menntun, almenningsrými og sjálfbærar samgöngur og tryggja nauðsynlega innviði fyrir framsækið atvinnulíf í borginni.

Lagt er upp með að Reykjavík verði markaðssett sem áhugaverður áfangastaður fyrir ferðamenn, en einnig að borgin vinni markvisst að því að laða að innlenda og erlenda fjárfestingu sem stuðli að atvinnuuppbyggingu. Eitt  markmið atvinnustefnunnar er að tryggja samhæfingu skipulags, lóðaúthlutana, framkvæmda sem og annarra þátta sem eru nauðsynlegir fyrir markvissa atvinnuþróun.

Í stefnunni eru dregnir upp allir meginþræðir er snerta atvinnumál á höfuðborgarsvæðinu og sett fram markmið til að ná þeim. Aðgerðirnar eru settar fram undir yfirskriftum átta stefnuvísa sem hver um sig afmarkar ákveðið viðfangsefni.  Þessir átta stefnuvísar  eru: Græn borg, Menningarborg, Ferðamannaborg, Athafna og nýsköpunarborg, Þekkingarborg, Lífsgæðaborg, Hafnarborg og Höfuðborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert