9 milljarðar á reikning hjá AGS

Helgi Hjörvar mælti fyrir áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar við …
Helgi Hjörvar mælti fyrir áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarpið um hækkun kvóta Íslands hjá AGS á Alþingi í morgun.

Mikil fjárhagsleg áhætta getur fylgt því að hækka framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kom fram við 2. umræðu um stjórnarfrumvarp um hækkun kvótans hjá AGS á Alþingi í dag. Flytja á 9 milljarða á innistæðureikning hjá AGS en Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði nánast útilokað að sjá það fyrir sér að AGS yrði galdþrota.

Frumvarpið kveður á um hækkun á stofnframlagi Íslands, sem jafngildir 58,3 milljörðum kr. og mun mun nýtt framlag Íslendinga nema 37,2 milljörðum kr. Helgi sagði við umræðurnar að fjórðungur fjárhæðarinnar yrði lagður fram í erlendum gjaldeyri með þeim hætti að af innistæðu Íslendinga í gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, á erlendum bankareikningum, verða 9 milljarðar fluttir á innistæðureikning hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Helgi sagði er hann svaraði andsvari Péturs H. Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að það væri alveg rétt að ef AGS yrði gjaldþrota, þá yrði Ísland fyrir miklu tjóni. „En það er nánast útilokað að sjá fyrir sér að það gerist án þess að þar með hafi skapast miklu meiri og víðtækari  vandamál, ekki bara í heiminum, heldur líka á Íslandi. Vegna þess að það myndi aðeins gerast við aðstæður þar sem helstu útflutningsmarkaðir okkar myndu að meira eða minna leyti hrynja og afurðaverð hvort sem er í áli eða fiski, og heimurinn í raun og veru allur vera í kaldakoli. Þá yrði þessi inneign hluti af því vandamáli sem við þyrftum þá að glíma við. Hins vegar skapar aðild okkar að sjóðnum, eins og við þekkjum, okkur líflínu, möguleika á því að ef við verðum fyrir áfalli þá getum við leitað þangað og fengið stuðning til að rísa á fætur á ný, eins og við höfum góða reynslu af,“ sagði Helgi.

Gjaldeyrisforðinn allur í skuld

Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokki sagði að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri um 1.000 milljarðar króna. „Hann er allur að láni, allur í skuld. Eftir því sem ég best veit er gjaldeyrisstaða landsins neikvæð um einhverja tugi milljarða. Engu að síður er hér farið fram á heimildir af hálfu hæstvirtrar ríkisstjórnar til þess að semja um hækkun á kvóta landsins til þess að taka aukin lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um 37 milljarða króna,“ sagði hann.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og framsögumaður minnilhluta efnahags- og viðskiptanefndar, sagði við umræðurnar að raunveruleg ástæða þess að lagt væri til að kvóti Íslands hjá AGS yrði aukinn, og meiri fjármunir sóttir til aðildarríkja sjóðsins, væri sú að válynd tíðindi bærust frá fjármálamörkuðum. „Það eru bara mjög miklar líkur á því að enn fleiri ríki þurfi á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda,“ sagði hann. Það ætti ekki síst við um lönd sem næst okkur eru.

Guðlaugur Þór  spurði Helga Hjörvar hvort ekki væri skynsamlegt að skoða málið betur og að fjárlaganefnd fengi það til skoðunar. Mikil fjárhagleg áhætta væri í þessu fyrir ríkissjóð.

Helgi Hjörvar sagði ekkert í sjálfu sér hægt að segja um á þessari stundu hvort skipti máli þó beðið yrði fram í febrúar. Sjóðurinn sé bakhjarl aðildarþjóðanna og hratt gæti dregið til tíðinda á mörkuðum. Ef ríkar ástæður væru til þess að draga málið fram í febrúar þá væri það ekki með öllu útilokað. Helgi sagðist ekki vera mótfallin því að fjárlaganefnd skoðaði málið ef hún teldi málefnalega ástæðu til þess.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert