Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, flutti eina stystu þingræðu sem heyrst hefur á Alþingi lengi þegar hann ræddi um frumvarp um að fresta gildistöku lagaákvæðis um hljóðupptökur ríkisstjórnarfunda.
„Herra forseti. Ég vil bara segja um þetta mál allt saman, að það er arfavitlaust. Og meira hef ég ekki um það að segja," sagði Illugi.
Um er að ræða ákvæði í lögum um stjórnarráð Íslands, sem voru samþykkt í haust. Ákvæðið um hljóðritanirnar átti að taka gildi um áramótin en nú er lagt til að það taki ekki gildi fyrr en í nóvember á næsta ári.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á þinginu í kvöld að hann sæi ekkert athugavert við að hljóðrita umræður á ríkisstjórnarfundum.