Fráleitt að Alþingi blandi sér í réttarhald

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

„Það er fráleit hugmynd að Alþingi Íslendinga blandi sér í réttarhald sem nú er hafið fyrir landsdómi," skrifar Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar á bloggvef sinn.

„Það væri í fullu ósamræmi við þrískiptingu valdsins og þær grundvallarreglur sem okkur er ætlað að starfa eftir. Alþingi getur ekki lögum samkvæmt fellt niður mál sem komið er til meðferðar í Landsdómi – málið er úr höndum Alþingis.

Tillaga Bjarna Benediktssonar um að fella niður málshöfðun á hendur Geir Haarde er þess vegna ekki þingtæk.

Landsdómsmálið er erfiðasta mál sem Alþingi hefur fengið til úrlausnar um margra ára skeið, ef ekki í sögunni. Það voru erfið andartök þegar ljóst var að Geir Haarde yrði einn að svara fyrir landsdómi, en ekki fagráðherrarnir með honum.

En Alþingi komst að niðurstöðu í málinu að undangenginni vandaðri og ítarlegri málsmeðferð sem m.a. birtist í 9 binda rannsóknarskýrslu Alþingis.

Geir Haarde mun fá réttláta og vandaða málsmeðferð fyrir dómi. Þar verða allar hans málsbætur teknar til greina og þær vegnar og metnar í samanburði við sakarefnin. Úr því sem komið er verður þetta mál hvergi til lykta leitt með sanngörnum eða skynsamlegum hætti nema fyrir dómnum.

Það er því fráleit hugmynd að Alþingi blandi sér í störf landsdóms með því að fella ákæruna niður og kveða þar með upp sinn eigin sýknudóm, nú þegar landsdómur hefur ákveðið að taka til greina fjögur ákæruatriði af sex og taka þau til efnislegrar meðferðar.

Að einhver þau málsatvik hafi komið fram fyrir dómnum sem „breyti forsendum málsins“ og „Alþingi þurfi að ræða“ eins og sagt var í umræðunum í morgun, er óráðshjal. Við flytjum ekki réttarhöld inn í þingsali Alþingis. Þetta mál verður ekki útkljáð þar, úr því sem komið er," skrifar Ólína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert