Þingmenn deildu hart við upphaf þingfundar í morgun um tillögu Bjarna Benediktssonar um að ákæran á hendur Geir H. Haarde verði dregin til baka. Þingmenn Sjálfstæðisflokks hvöttu þingmenn til að taka höndum saman um tillöguna en nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna gagnrýndu tillöguna.
Magnús Orri Schram Samfylkingunni sagði að Alþingi ætti ekki að grípa inn í feril ákærumálsins. Sagðist hann bera fullt traust til þess að Geir H. Haarde njóti sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar fyrir Landsdómi.
Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, minnti á að fyrst hafi verið lagt upp með að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir en síðan samþykkti meirihluti þingmanna að eingöngu Geir yrði ákærður. „Ég held að Alþingi eigi að endurskoða þetta mál, sérstaklega þegar búið er að vísa veigamiklum þáttum frá,“ sagði hann.
Ólína Þorvarðardóttir Samfylkingunni sagði Landsdómsmálið erfiðasta málið sem Alþingi hefði fengið til úrlausnar. „Alþingi Íslendinga getur ekki verið þekkt fyrir það að ganga inn í réttarhald sem er hafið fyrir dómstól. Það væri að bíta höfuðið af skömminni,“ sagði hún. Sagði Ólína fráleitt ef forseti léti sér til hugar koma að setja málið á dagskrá.
Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði að þetta mál kæmi úr „myrkustu iðrum Sjálfstæðisflokksins“. Sagði hann að ákæran væri í ágætisfarvegi. „Það er Sjálfstæðisflokkurinn og enginn annar sem er að biðja um það að málið verði dregið til baka,“ sagði hann.
Lúðvík Geirsson Samfylkingunni gagnrýndi tillöguna og vinnubrögð sem viðhöfð væru á þinginu. „Það var hér úr ræðustól þingsins fyrir nokkru síðan lögð fram sú hugmynd að það væri ástæða til að setja upp rólur í hliðarsölum, þar sem einstaka þingmenn, sem geta ekki unað þeim almennu starfsháttum, sem eiga að vera hér á þinginu, gætu dundað sér í þeim rólum,“ sagði Lúðvík og sagði hugsanlega væri nú ástæða til að taka þá tillögu aftur til skoðunar.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði skrítið að heyra þá gagnrýni stjórnarþingmanna að Alþingi eigi ekki að grípa inn í dómsmál. Þetta væru flokkarnir sem gætu hunsað niðurstöður t.d. Hæstaréttar um ógildingu kosninganna til stjórnlagaráðs.
„Ég hef aldrei á ævi minni kynnst öðrum eins munnsöfnuði og vinnubrögðum og hjá háttvirtum þingmönnum, Þór Saari og Birni Val Gíslasyni, á síðustu dögum þegar verið er að semja um mál,“ sagði hann og beindi spjótum sínum að þingflokki Vinstri grænna, sem hann sagði að hefði ekki staðið við samninga um afgreiðslu þingmáls. Þá sagði Gunnar Bragi að þingmenn Hreyfingarinnar ættu að skammast sín. Þeir væru alltaf að vanda um fyrir öðrum þingmönnum. „Ég held að þingmenn Hreyfingarinnar ættu bara að skammast sín, hlusta á eigin ræður og hvernig þessir þingmenn tala niður Alþingi og tala niður þjóðina. Þið eruð okkur til skammar,“ sagði hann.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það væri Alþingi sem ræki Landsdómsmálið og af því leiði að Alþingi hlyti að hafa á því skoðun og geta skipt um skoðun á því ef því sýndist svo.
Sigmundur Davíð sagði það eðlilega kröfu að fá að taka þetta mál fyrir.