Liu fái pólitískt hæli á Íslandi

Autt sæti var þar sem Liu Xiaobo hefði setið ef …
Autt sæti var þar sem Liu Xiaobo hefði setið ef hann hefði fengið að veita friðarverðlaunum Nóbels viðtöku í fyrra. Kommúnistastjórnin í Kína setti eiginkonu Liu í stofufangelsi eftir að verðlaunin spurðust út. Reuters

Þingmennirnir Þráinn Bertelsson og Björn Valur Gíslason leggja til í tillögu til þingsályktunar að kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels, verði veitt pólitískt hæli á Íslandi. Með því sé ríkur áhugi Kínverja til fjárfestinga hér endurgoldinn.

Liu fékk friðarverðlaunin í fyrra en gat ekki veitt þeim viðtöku þar sem hann sat á bak við lás og slá vegna andófs síns. Eiginkona hans gat heldur ekki mætt til athafnarinnar sökum þess að hún var sett í stofufangelsi af kommúnistastjórninni í Kína.

Orðrétt segja þingmennirnir í tillögunni að eindreginn vilji Huang Nubo til að fjárfesta á Íslandi gefi tilefni til að bjóða andófsmenninum Liu hæli á Íslandi:

„Það væri við hæfi fyrir Íslendinga að endurgjalda þennan áhuga með því að skjóta skjólshúsi yfir Liu Xiaobo sem ekki virðist vera pláss fyrir í hinu víðlenda heimalandi stórskáldsins Li Bai (Lí Pó) sem eins og hinn hagorði Huang Nubo nú öldum síðar bar orðstír heimalands síns um alla heimsbyggðina.“

Veiti andófsmanni „pólitískt skjól“

Greinargerð tvímenninganna með tillögunni er svohljóðandi en þar eru friðarverðlaunin sett í samhengi við feril Liu:

„Friðarverðlaun Nóbels eru veitt á ári hverju þeim sem unnið hafa mest að bræðralagi þjóða, að afvopnun, dregið hafa úr hernaðarmætti eða staðið fyrir friði meðal manna. Verðlaunin eru veitt af norska þinginu sem kýs sérstaka friðarverðlaunanefnd sem stendur að vali verðlaunahafanna.

Árið 2010 voru kínverska friðarsinnanum Liu Xiaobo veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallarmannréttindum í Kína. Liu Xiaobo er einn höfunda Charter 08 yfirlýsingarinnar sem hvetur til lagalegra og pólitískra umbóta í Kína svo að landið verði lýðræðisríki sem virðir mannréttindi.

Kínversk yfirvöld beittu sér mjög gegn því að kínverski friðarsinninn fengi verðlaunin og höfðu uppi ýmsar hótanir í garð norskra stjórnvalda af því tilefni. Þau brugðust á endanum afar illa við afhendingunni og töldu hana ganga gegn öllum meginreglum friðarverðlaunanna og vera nánast „goðgá“.

Liu Xiaobo var handtekinn 8. desember 2008 vegna friðarbaráttu sinnar og ákærður fyrir að hvetja til undirróðurs gegn kínverskum yfirvöldum. Á jóladag 2009 var hann síðan dæmdur til ellefu ára fangavistar fyrir framangreindar sakir að loknum réttarhöldum sem stóðu aðeins yfir í tvo klukkutíma.

 Á undanförnum árum hafa kínversk yfirvöld og fyrirtæki sýnt Íslandi lofsamlegan áhuga, nú síðast þegar auðjöfurinn og ljóðskáldið Huang Nubo vildi festa kaup á stórri spildu af Íslandi vegna ástar sinnar á landinu. Það væri við hæfi fyrir Íslendinga að endurgjalda þennan áhuga með því að skjóta skjólshúsi yfir Liu Xiaobo sem ekki virðist vera pláss fyrir í hinu víðlenda heimalandi stórskáldsins Li Bai (Lí Pó) sem eins og hinn hagorði Huang Nubo nú öldum síðar bar orðstír heimalands síns um alla heimsbyggðina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert