Mikill verðmunur á jólamatnum

Mikill verðmunur var á reyktu kjöti í þeim sjö matvöruverslunum sem verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun í á mánudag. Bónus var oftast með lægsta verðið en Samkaup-Úrval oftast með hæsta verðið.

Kannað var verð á 72 algengum matvörum sem verða á borðum landsmanna yfir jólahátíðina. Bónus var með lægsta verðið í 42 tilvikum af 72. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið í 35 tilvikum af 72, en Hagkaup voru með hæsta verðið í 33 tilvikum. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar í verslunum Hagkaupa eða í 69 tilvikum af 72 og í Fjarðarkaupum 68. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Nóatúni eða aðeins 52 af 72 og í Bónus 53. Verslanirnar Víðir og Kostur neituðu þátttöku í könnun verðlagseftirlitsins.  

Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á fersku rauðkáli sem var dýrast á 348 kr./kg hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 193 kr./kg hjá Nettó, verðmunurinn er 155 kr. eða 80%. Mikill verðmunur var einnig á rauðum vínberjum sem voru dýrust á 898 kr./kg hjá Nóatúni en ódýrust á 524 kr./kg hjá Nettó, verðmunurinn er 374 kr. eða 71%.

Minnstur verðmunur í könnuninni reyndist vera á hreindýrapaté frá Viðbót, sem var dýrast á 4.989 kr./kg hjá Nettó, Krónunni, Nóatúni og Hagkaupum en ódýrast á 4.945 kr./kg hjá Fjarðarkaupum sem er 1% verðmunur. Aðeins meiri verðmunur var á frosinni sjávarréttablöndu frá Sælkerafiski, sem var dýrust á 1.785 kr./kg. hjá Hagkaupum en ódýrust á 1.694 kr./kg. hjá Krónunni sem er 5% verðmunur. 

Allt að 37% verðmunur á reyktu kjöti

Af þeirri reyktu kjötvöru sem verðlagseftirlitið skoðaði að þessu sinni var mestur munur á SS-hamborgarhrygg með beini sem var ódýrastur á 1.679 kr./kg hjá Bónus en dýrastur á 2.298 kr./kg hjá Fjarðarkaupum, verðmunurinn er 619 kr. eða 37%. Mikill verðmunur var einnig á úrbeinuðum KEA-hangiframparti sem var ódýrastur á 2.298 kr./kg hjá Bónus og dýrastur á 3.098 kr./kg hjá Hagkaupum. Verðmunurinn er 800 kr./kg eða 35%. Frosinn reyktur hátíðarkjúklingur frá Holta var ódýrastur á 898 kr./kg hjá Bónus en dýrastur á 1.149 kr./kg hjá Samkaupum-Úrvali sem er 28% verðmunur.

Af öðrum vörum má t.d. nefna að mikill verðmunur var á fylltum skeljum frá Nóa (280 g) sem voru á ódýrastar á 749 kr./st. hjá Bónus en dýrastar á 899 kr./st. hjá Hagkaupum sem er 20% verðmunur. Hvít 600 g jólaterta frá Myllunni var ódýrust á 498 kr./st. hjá Bónus en dýrust á 619 kr./st. hjá Nettó sem er 24% verðmunur.

Kannað var verð á 72 matvörum, s.s. kjötvörum, mjólkurvörum, kökum, konfekti, drykkjarvörum, grænmeti og ávöxtum.

Sjá nánar á vef ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka