Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, hefur tilkynnt þeim Ólafi Ísleifssyni, formanni stjórnar ISB Holding (sem fer með 95% hlut í Íslandsbanka), Ástu Þórarinsdóttur stjórnarmanni og Maríu Björgu Ágústsdóttur, stjórnarmanni, að ákveðið hafi verið að skipta um stjórn ISB Holding.
Skýrði hún þessa ákvörðun, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, á þann veg að um áherslubreytingar væri að ræða, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Steinunn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, spurð um ástæður þess að stjórnin var sett af, að breytingar væru framundan. „Skilanefndin sem skipaði stjórn ISB Holding hættir um áramót og það má segja að nýju fólki fylgi nýjar áherslur. Við erum að fara inn í nýjan fasa núna, sem er endurskipulagning, mögulegir nauðasamningar hjá Glitni og inn í þá atburðarás fléttast Íslandsbanki óhjákvæmilega. Við teljum okkur vera að fá mjög hæft fólk þarna til starfa,“ sagði Steinunn.