„Svakalegu fargi af okkur létt“

Reimar segir að óvissunni hafi nú verið létt fyrir fjölmarga …
Reimar segir að óvissunni hafi nú verið létt fyrir fjölmarga bændur í Húnaþingi sem hafa haldið að sér höndum og ekkert fjárfest vegna málsins. Myndin er úr safni. mbl.is/RAX

„Það er alveg svakalegu fargi af okkur létt,“ segir Reimar Marteinsson, talsmaður samtaka stofnfjáreigenda í fyrrverandi Sparisjóði Húnaþings og Stranda, vegna ákvörðunar Landsbankans að fella niður fjölda lána vegna stofnfjárkaupa í sparisjóðum.

Aðspurður segir Reimar að skuld Húnvetninga hafi verið á bilinu tveir til þrír milljarðar.

Um er að ræða lán sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti einstaklingum og lögaðilum vegna kaupa á nýju stofnfé í SpKef, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga í lok árs 2007. Landsbankinn segir að með þessu verði bundinn endi á óvissu í málum þeirra einstaklinga og lögaðila á landsbyggðinni sem fengu lán til kaupa á stofnfé í fyrrnefndum sparisjóðum í árslok 2007.

„Menn eru í hálfgerðu móki. Ég tek ofan fyrir Landsbankanum að hafa gert þetta í stað þess að láta okkur bíða í eitt og hálft ár til tvö ár, sem þeir hefðu getað gert með því að fara með þetta fyrir dóm. Þeir gerðu samfélaginu svakalegan greiða með því að gera þetta strax,“ segir Reimar í samtali við mbl.is. Þetta snerti á að giska 50 til 60 heimili á svæðinu.

Hann segir að mál stofnfjáreigendanna hafi verið í vinnslu frá árinu 2009. Fyrst með viðræðum við SpKef og síðan í gegnum Landsbankann í kjölfar yfirtökunnar á SpKef. Í fyrstu hafi menn ætlað að fara einhverskonar samningaleið, m.a. með því að reyna að fá skuldina fellda að niður að hluta.

Fyrir nokkrum mánuðum hafi staðan síðan verið sú að málið var á leið fyrir dómstóla, og yrði það prófmál. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Byrs, sem leiddi til þess að Íslandsbanki felldi niður útistandandi lán, fóru stofnfjáreigendur í fyrrverandi Sparisjóði Húnaþings og Stranda að kanna hvort niðurstaða Hæstaréttar hefði ekki fordæmisgildi.

„Þó svo að þetta hefði alltaf orðið niðurstaðan, miðað við hvernig Byr-dómurinn féll, þá er það að þeir skyldu spara okkur þessa óvissu í eitt og hálft til tvö ár rosalega mikils virði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert