AGS-máli frestað fram yfir áramót

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Samkomulag er á Alþingi um að fresta lokaafgreiðslu á umdeildu frumvarpi um hækkun stofnframlags Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fram yfir áramót. Langar umræður urðu um málið á Alþingi í gær og gagnrýndu stjórnarandstæðingar frumvarpið harðlega.

Samkvæmt frumvarpinu mun kvóti Íslands af stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hækka úr 117,6 milljónum SDR í 321,8 milljónir SDR, sem jafngildir um 58,3 milljörðum króna. Framlagið myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá AGS en nýtt framlag Íslands til sjóðsins verður 37,2 milljarðar kr.

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, benti á það við umræðurnar í gær að fjórðungur fjárhæðarinnar yrði lagður fram í erlendum gjaldeyri með þeim hætti, að af innistæðu Íslendinga í gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, á erlendum bankareikningum, verða níu milljarðar fluttir á innistæðureikning hjá AGS. 

Að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, verður afgangurinn, 27,9 milljarðar króna, geymdur í Seðlabanka Íslands, tiltækur fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um leið og sjóðurinn þarfnast peninganna.

Frumvarpið var í dag afgreitt til þriðju umræðu. Helgi Hjörvar sagði, að Íslendingar hefðu nýverið reynt það hversu mikilvæg aðildin að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé og mikilvægt væri að Íslendingar tækju fullan þátt í störfum sjóðsins og áætlunum hans.

Lilja Mósesdóttir, utan flokka, sagði að ríkissjóður glímdi nú við mikla skuldsetningu. Nú ætti að samþykkja að nota 9 milljarða af rándýru láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að leggja inn á reikning hjá sjóðnum. Vaxtamunurinn á láni Íslands hjá AGS og framlaginu til sjóðsins væri rúm 5%. Þetta væri óviðunandi, ekki síst í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn hefði réttlætt blóðugan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu með nauðsyn þess að ná niður vaxtakostnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert