Engin sátt um Vonarskarð og Vikrafellsleið

Jeppaleiðangur á Vatnajökli.
Jeppaleiðangur á Vatnajökli. mbl.is/Árni Sæberg

Starfshópur um samgöngur í Vatnajökulsþjóðgarði klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort leyfa ætti umferð um Vonarskarð og um Vikrafellsleið. Með stjórnar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs var þessum leiðum og fleirum lokað en þær ráðstafanir voru töluvert gagnrýndar og efndu jeppamenn m.a. til ferðar í Vonarskarð þar sem þeir reistu kross til minningar um ferðafrelsið.

Starfshópnum var komið á laggirnar sl. vor og var ætlað að skila skýrslu til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs sem m.a. gæti falið í sér tillögur að breytingum á verndaráætluninni. Samstaða tókst um flest, t.d. að rýmka mætti reglur um hámarks fjölda hesta í hestaferð úr 20 í 45 en að þjóðgarðsverðir geti sett þrengri skilyrði fyrir ákveðnar leiðir.

Einnig var hópurinn sammála um að ákvæði um takmörkun á tjöldun, sem mörgum þótti alltof hörð, verði tekin til endurskoðunar. Settar yrðu skýrari reglur sem hafi sanngirni og jafnræðisreglu að leiðarljósi og minnt var á ákvæðin náttúruverndarlaga þar sem öllum er leyfð tjöldun þriggja tjalda til einnar nætur.

Í heitustu deilumálunum klofnaði starfshópurinn á hinn bóginn. Hvað Vikrafellsleið, við Öskju, áhrærir töldu fulltrúar frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar, fulltrúi Vatnajökulsþjóðgarðs, hestamanna og tengiliður Náttúrufræðistofnunar að vélknúin umferð ætti að vera bönnuð. Bentu þeir m.a. á að lokun leiðarinnar hefði umtalsverð áhrif á víðerni þjóðgarðsins, skv. alþjóðlegum skilgreiningum.

Annar hluti starfshópsins, þ.e. fulltrúar félaga vélknúinnar umferðar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka útivistarfélaga (Samút) og fulltrúi göngu- og hjólreiðamanna töldu að opna ætti Vikrafellsleið fyrir vélknúinni umferð og umferð hestamanna. Þeir bentu m.a. á að bílslóðin væri kjörin til að njóta náttúruperlna, án þess að valda skemmdum á náttúrunni. Með lokun slóðans væri svæðið aðeins op
ið harðasta göngufólki, m.a. vegna vatnsskorts á svæðinu.

Svipað var upp á tengingnum þegar kom að Vonarskorði, nema hvað klofningurinn var ekki eftir nákvæmlega sömu línu og fyrr. Raunar var starfshópurinn sammála um nauðsyn þess að láta framkvæma hlutlausa, vísindalega, rannsókn á þolmörkum svæðisins.

Fulltrúar félagasamtaka á sviði náttúruverndar, Vatnajökulsþjóðgarðs, hestamanna og tengiliður við Náttúrufræðistofnun litu svo á að takmarka ætti umferð sem kostur sé meðan á rannsókn stæði.

Fulltrúar vélknúinnar umferðar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samút og fulltrúi göngu- og hjólreiðamanna beindi því á hinn bóginn til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að Vonarskarð yrði opið fyrir umferð eftir 1. september ár og fram að leysingum að vori. Fulltrúar ferðaþjónustunnar tóku ekki afstöðu í þessum málum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka