Fréttaskýring: Geta fellt niður ákæruna

Möguleiki er á því að ákæra Alþingis á hendur Geir …
Möguleiki er á því að ákæra Alþingis á hendur Geir H. Haarde verði látin niður falla af hálfu ákæruvaldsins, þ.e. Alþingis. mbl.is/Kristinn

„Ég hef nú svo sem ekkert lagst yfir þetta en ég sé ekki af hverju Alþingi ætti ekki að geta afturkallað þetta,“ segir Sigurður Líndal, prófessor emeritus, aðspurður hvort hann telji Alþingi geta afturkallað ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Að sögn Sigurðar sér hann enga ástæðu fyrir því af hverju meirihluti Alþingis ætti ekki að geta afturkallað ákæruna ef meirihluti þingsins sér ekki ástæðu til að halda málsrekstrinum áfram, enda fari Alþingi með ákæruvaldið í þessu tilfelli.

„Hann [saksóknari Alþingis] vinnur í umboði Alþingis. Mér finnst eitthvað svo óeðlilegt að Alþingi algjörlega afsali sér forræði málsins,“ segir Sigurður og bætir við: „Það er spurning hvort saksóknari vinni alveg sjálfstætt eða hvort hann sé bundinn af einhverjum fyrirmælum frá Alþingi. Ég hef ekki skoðað það en ég tel nú svona almennt séð að Alþingi eigi að hafa sem minnst afskipti af málinu eftir að það er farið af stað og ekki að vera að fjarstýra honum [saksóknaranum].“ Sigurður bendir jafnframt á að saksóknari Alþingis hafi verið kosinn af Alþingi á sínum tíma.

Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, segir menn þó ekki hafa verið sammála um túlkun laganna. „Mér er það kunnugt að til dæmis hafi Ólafur Jóhannesson talið það vera í rauninni meginregluna að þegar Alþingi hefur tekið ákvörðun um málshöfðun með þingsályktun og kosið saksóknara og þingmannanefndina sem á að vera honum til aðstoðar sé málið algjörlega úr höndum þingsins og að eina leiðin til þess að leysa ráðherrann undan saksókn væri þá með samþykki Alþingis og forsetans á grundvelli 29. gr. stjórnarskrárinnar.“

Jón Þór segist þó vera annarrar skoðunar en Ólafur. „Samkvæmt lögunum um landsdóm er það Alþingi sem að ákveður að höfða málið og fer þarafleiðandi með ákæruvaldið og meira að segja í ákærunni, sem var gefin út 10. maí 2011, tekur saksóknari Alþingis það sérstaklega fram að hann geri þær kröfur fyrir hönd Alþingis að ákærði verði dæmdur til refsingar,“ segir Jón Þór.

Að sögn Jóns Þórs hefur Alþingi heimild til þess að afturkalla málið. Jón Þór bætir við að hann telji að það gæti talist sem sjálfstætt brot gegn réttlátri málsmeðferð, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, ef heimildir ákæruvaldsins til þess að afturkalla eða fella niður ákæru eru takmarkaðar. Meginreglan í öllum sakamálum sé að ákæruvaldið hafi heimild til að afturkalla ákæru alveg fram að dómsuppkvaðningu. Því væri það fyrirkomulag sem hér er gert að umþrætuefni mun óhagfelldara hinum ákærða án þess að fyrir því væri nokkur lagastoð. Jón Þór segir að slíkar takmarkanir hefðu þurft að koma skýrt fram í lögunum.

Segist þurfa að skoða málið

„Ég myndi nú bara þurfa að skoða það. Það er náttúrlega ekkert sérstaklega um þetta kveðið í landsdómslögunum sjálfum en eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni sjálfri er það hin almenna regla í sakamálalögunum að ákærandinn, sem er í rauninni Alþingi, fari með ákæruvaldið,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, spurð hvort hún telji að henni beri að fylgja þingsályktuninni ef hún fæst samþykkt af meirihluta Alþingis.

Í lögum um landsdóm segir ekki um það hvort Alþingi eða saksóknari Alþingis geti fellt niður málsókn. Þar segir hins bóginn að beita skuli ákvæðum laga um meðferð sakamála ef ákvæði vanti í landsdómslögin. Í 153. gr. laga um meðferð sakamála segir svo: „Ákærandi getur allt fram til þess að dómur er upp kveðinn afturkallað ákæru sem hann hefur gefið út eða fallið frá einstökum ákæruatriðum.“

Að því sögðu er ekki hægt að draga aðra ályktun en að fram á síðustu stundu – dómsuppkvaðningu – geti Alþingi afturkallað ákæruna.

Töldu niðurfellingu óheimila

„Kenning Ólafs Jóhannessonar og fleiri er sú að þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið sækjanda og þingnefnd fimm manna, honum til aðstoðar, er málið komið úr höndum þingsins. Hvorki hið sama þing né nýskipað getur afturkallað málsókn,“ segir Sigurður Líndal, prófessor emeritus. Sigurður tekur þó fram að hann sé ósammála þessari kenningu.

Ólafur Jóhannesson var einn af helstu lögspekingum Íslands. Hann var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands í rúm þrjátíu ár og gegndi síðarmeir m.a. embætti forsætisráðherra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert