Flugvélar á vegum Iceland Express fóru oftar á réttum tíma frá landinu en vélar Icelandair í fyrri hluta desember. Þetta kemur fram á vefnum túrista.is og segir þar að þetta sé í fyrsta skipti frá því vefurinn hóf að reikna út stundvísitölur að vélar IE hafi vinninginn að þessu leyti.
75% flugferða Iceland Express frá landinu hófust á réttum tíma en 67% flugferða Icelandair. Myndin breytist hins vegar þegar skoðaðar eru flugferðir til landsins. Þá voru 55% flugferða Icelandair á áætlun en 28% flugferða Iceland Express.
Fram kemur á vefnum, að komu- og brottfarartímar á Keflavíkurflugvelli stóðust ekki áætlun í fjöldamörgum tilvikum fyrstu tvær vikurnar í desember. Á móti komi, að tafirnar voru oftast litlar og því var meðalbiðtíminn stuttur hjá bæði farþegum Icelandair og Iceland Express. Í heildina biðu farþegar aðeins í 11 mínútur að jafnaði hjá báðum félögum.
Nánar má lesa um málið á vefnum túristi.is