Loforð efnd með raðgreiðslum

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins líkir lagafrumvarpi um að fresta gildistöku lagaákvæðis um hljóðupptökur af ríkisstjórnarfundum, við það að loforð séu efnd með raðgreiðslum. Þingmaður Hreyfingarinnar sakar ríkisstjórnina um lagasniðgöngu.

Frumvarpið, sem eftirlits- og stjórnskipunarnefnd þingsins lagði fram, var samþykkt eftir aðra umræðu í þinginu í morgun. Um er að ræða ákvæði í nýjum lögum um stjórnarráð Íslands, sem samþykkt voru í haust en ákvæðið um hljóðritanirnar átti að taka gildi um áramót. Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins lagði hins vegar fram frumvarp um að gildistöku hljóðritunarákvæðisins verði frestað til 1. nóvember vegna ýmissa álitamála, sem komið hafa upp.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag, að allir vissu hvernig þetta mál hefði komið til. Þegar ríkisstjórnin var komin í vandræði með að ná frumvarpinu um stjórnarráð Íslands út úr allsherjarnefnd þingsins í haust, m.a. vegna andstöðu stjórnarliða, hefði stjórnin sest á rökstóla og komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að ná samstöðu í nefndinni með því að setja þetta ákvæði inn.

Nú hefði ríkisstjórnin komist að raun um það, að hún geti ekki efnt loforðið um hljóðritanir. „Hvað er þá gert? Þá er verið að efna loforðið með þessum hætti, með einskonar afborgunarskilmálum. Þetta er svona efnd loforða með raðgreiðslum því það á ekki að efna loforðið að fullu  heldur aðeins síðar," sagði Einar.

Hann sagði að vel mætti velta því fyrir sér hvort fróðlegt væri að heyra eitthvað af því sem gerst hafi á fundum ríkisstjórnarinnar. „Mér finnst ég eiginlega vera búinn að heyra nóg frá þessari ríkisstjórn," sagði Einar.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi frestun gildistöku lagaákvæðisins harðlega og sagði um að ræða lagasniðgöngu af hálfu forsætisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar. „Þeir vilja ekki opið og gagnsætt samfélag á Íslandi. Til þess hafa stjórnarflokkarnir líka stuðning annarra flokka á þingi. Þetta er dapurlegur vitnisburður um meðferð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjórflokkurinn lætur sína hagsmuni ganga fyrir hagsmunum almennings," sagði Þór.

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sem beitti sér mjög fyrir því í allsherjarnefnd þingsins í haust að ákvæði um hljóðupptökur yrði sett inn, sagðist fallast á þennan frest til að leiðrétta hnökra, sem komið hefðu fram á lagaákvæðinu.  „Og treysti því að ríkisstjórnin vilji standa með okkur, sem viljum aflétta leyndarhyggju í stjórnkerfi Íslands."

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að málefnaleg rök hefðu verið færð fyrir því að fresta gildistöku lagaákvæðisins um 10 mánuði. „Ég held að einu hljóðupptökurnar, sem andstæðingar þessa máls þurfa að hafa áhyggjur af eru upptökur af ræðum þeirra hér í dag," sagði hann.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lagði til að ákvæðið um hljóðritanirnar yrði fellt úr gildi en sú tillaga var felld með 29 atkvæðum gegn 21. Lagafrumvarpið var síðan samþykkt með 29 atkvæðum en 23 þingmenn sátu hjá. Það þarf að fara gegnum lokaumræðu áður en það verður að lögum. Samþykkt var að vísa frumvarpinu aftur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins fyrir þriðju og síðustu umræðu en Þór Saari,  sagðist ætla að beita sér fyrir því þar, að fresturirnn á gildistökunni yrði styttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert