„Það er búin að vera mjög þétt traffík í dag og reyndar í gær líka, þannig að helgin er að byrja með alveg fullu blasti,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.
Að sögn Sigurjóns hefur mikill mannfjöldi komið við í Kringlunni í dag, bílastæði í kringum Kringluna séu öll full og fólk hafi tekið upp á því að „leggja á næstum því hverjum einasta bletti sem hægt er að finna.“
„Þetta er allt saman í takt við væntingar,“ segir Sigurjón og bætir við að Kringlan hafi farið viku seinna af stað í ár með „tíu opnanir“ heldur en vanalega.
Sigurjón á von á því að umferðin í Kringlunni verði mjög þétt á næstu dögum og þá sérstaklega frá og með 20. desember. Hann bendir á að stærstu verslunardagarnir fyrir jól séu vanalega síðasti laugardagurinn fyrir hátíð og Þorláksmessa.