Var Jón þá ekki með sárasótt?

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.
Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.

Sú saga hefur verið lífseig að Jón Sigurðsson forseti hafi verið með sárasótt þegar hann lagðist í rúmið vegna veikinda í upphafi árs 1840, þá 29 ára að aldri. Í nýútkominni bók um Ingibjörgu Einarsdóttur konu hans er sögunni um sárasóttina andæft og því varpað fram að Jón hafi allt eins getað verið með sýkingu í eista sem hafi valdið vökvasöfnun í pungnum.

„Þessi sjúkdómur er vel þekktur hjá ungum körlum enn í dag og svarar oft sýklalyfjum, sem þá voru ekki til. Dæmigerð einkenni sárasóttar (syphilis) eru hins vegar allt önnur,“ segir á blaðsíðu 42 í bókinni. Er það Elías Ólafsson læknir og prófessor sem telur líklegast að Jón hafi þjáðst af sýkingu í eistanu frekar en sárasótt.

Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingur og höfundur bókarinnar Ingibjörgsegir að þessi niðurstaða sé fengin út frá heimildum og mati lækna í dag. „Sagan um sárasóttina kemur fram strax og Jón veikist. Enda var sárasótt útbreiddur sjúkdómur á þessum tíma og því auðvelt að draga þessa ályktun. En ekkert í sjúkdómslýsingum Jóns bendir til þess að þetta hafi verið sárasótt. Margt vísar í þá átt að um annan algengan kvilla sé að ræða,“ segir Margrét. Samkvæmt heimildum var Jón með sjúkdóm sem tengdist kynfærunum, hann var bólginn og átti erfitt með gang. Einu haldbæru heimildirnar um veikindi hans eru lýsingar hans sjálfs í bréfum. Margrét styðst við bréf Jóns til Páls Melsted og Gísla Hjálmarssonar og bréf Ólafs Einarssonar, bróður Ingibjargar, til Jóns. „Þessar heimildir og lýsingar Jóns eru nokkuð nákvæmar og passa ágætlega við þessa eistnabólgu. Það er samt ekki hægt að segja af eða á þegar um sjúkdóm löngu liðins fólks er að ræða og við höfum engar læknaskýrslur undir höndum.“

Margrét segist varpa þessu fram því þetta komi Ingibjörgu við. „Hvort mannsefni hennar hafi verið smitað af kynsjúkdómi eða kvilla sem gat lagst á hvern sem var skiptir máli í hennar sögu. Sagan um sárasóttina gaf gróusögum um að hann væri henni ótrúr byr undir báða vængi og hefur gert fram til dagsins í dag. Markmiðið með þessu er ekki að fegra myndina af Jóni heldur blasti þetta við í heimildum,“ segir Margrét.

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson.
Margrét Gunnarsdóttir.
Margrét Gunnarsdóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert