Ákæran opinber á morgun

Lárus Welding var forstjóri Glitnis frá 2006 þar til ríkið …
Lárus Welding var forstjóri Glitnis frá 2006 þar til ríkið tók bankann yfir 2008. mbl.is/Kristinn

Ákæruskjal sem birt hefur verið Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og öðrum manni sem tengist bankanum verður opið fjölmiðlum til skoðunar um hádegi á morgun, þegar þrír sólarhringar verða liðnir frá því ákæran var birt seinni manninum. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segist í samtali við mbl.is ekki geta sagt frá efnisatriðum ákærunnar að svo stöddu.

Ákæruskjalið var tilbúið í síðustu viku og birt viðkomandi, þeim seinni um hádegi á föstudag.

Í fréttum Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins í kvöld kom fram að ákæran tengist lánveitingum Glitnis til að endurfjármagna erlent lán sem eignarhaldsfélög í eigu Milestone og Einars og Benedikts Sveinssonar höfðu tekið.

Tvisvar yfirheyrðir

Lárus Welding hefur tvisvar verið kallaður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara, svo fram hafi komið opinberlega, í báðum tilvikum ásamt fleiri starfsmönnum hins fallna banka.

Í nóvember á síðasta ári voru gerðar húsleitir á tíu mismunandi stöðum og fjöldi manns tekinn til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn á lánveitingum Glitnis. Fimm mál voru tilgreind, meðal annars Stím-málið sem snerist um viðskipti með hlutabréf bankans og lánveitingar á móti.

Um síðustu mánaðamót voru miklar yfirheyrslur vegna Glitnismála og voru þrír menn úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Það voru Jóhannes Baldursson, fyrrverandi yfirmaður markaðsviðskipta hjá Glitni, og Ingi Rafnar Júlíusson verðbréfamiðlari, auk Lárusar Welding forstjóra. Kom fram að rannsóknin snýr að kaupum eigin viðskipta Glitnis á hlutabréfum í bankanum á verðbréfamarkaðnum, einnig kaupum á hlutabréfum í FL  Group og lánveitingum til ýmissa félaga vegna kaupa á hlutabréfum bankans á árunum 2007 og 2008. Stím kemur við sögu í þessum málum.

Enn fyrr, eða í júlí 2009, voru gerðar húsrannsóknir á tíu stöðum í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara á fjárfestingum og lánastarfsemi Sjóvár. Þá var meðal annars leitað á heimilum Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Sjóvár, og skrifstofu hans sem formanns Samtaka atvinnulífsins, Guðmundar Ólafssonar, forstjóra Milestone, og Karls Wernerssonar sem var aðaleigandi Milestone.

Þriðja ákæra sérstaks saksóknara

Ákæran sem birt hefur verið Lárusi Welding og öðrum manni sem tengist bankanum er þriðja ákæran sem embætti sérstaks saksóknara gefur út.

Í lok júní voru þrír menn ákærðir í svokölluðu Exeter-máli. Það voru Jón Þór Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka. Þeir voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur af því að hafa framið umboðssvik með 1,1 milljarðs króna lánveitingu Byrs til Exeter Holding. Saksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Annað málið var ákæra á Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Hann var í Héraðsdómi dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrri að hagnýta sér innherjaupplýsingar. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.

Ólafur Þór Hauksson ítrekar fyrri yfirlýsingar um að rannsókn á tíu málum sem tengjast bankahruninu sé að ljúka, þegar hann er spurður að því hvort fleiri ákærur séu væntanlegar. Hann segist í samtali við mbl.is. ekki geta fullyrt að ákært verði í fleiri slíkum málum fyrir áramót, en á von á því fljótlega í byrjun nýs árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka