Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, vegna gruns um stórfelld umboðssvik í fléttu sem tengist félaginu Svartháfi. Kom þetta fram í fréttum Stöðvar 2.
Í fréttinni kemur fram að sérstakur saksóknari vildi ekki staðfesta að ákæra hefði verið gefin út og heldur ekki lögmaður Lárusar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 er Lárus grunaður um að hafa misnotað umboð sitt sem forstjóri Glitnis og formaður áhættunefndar bankans með því að heimila lán bankans til Svarháfs 29. febrúar 2008.
Rannsókn sérstaks saksóknara á Svartháfs-fléttunni tengist uppgjöri á láni til Þáttar International, sem var í eigu Karls og Steingrímsson Wernerssonar, Milestone og Einars Sveinssonar og fjölskyldu, hjá bandaríska bankanum Morgan Stanley. Lánið var að fjárhæð 100 milljónir evra, jafnvirði liðlega 10 milljarða króna.