Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ríkisstjórnin hafi lifað af atburði sem engin ríkisstjórn ætti að gera. Hún virtist ætla að lifa allt af, nema kosningar. Kom þetta fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.
Þorgerður bætti því við að pólitísk óreiða ríkti hér og vísaði til óeiningar í ríkisstjórninni.
Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, neitaði því að pólitísk óreiða væri í landinu. Sama ríkisstjórnin væri búin að vera við völd í þrjú ár. Stjórnarmeirihlutinn væri að leggja lokahönd á stórverkefni og koma öðrum í gang.
„Við viljum fá uppskeruna í hús,“ sagði Oddný og bætti því við að næstu kosningar byggðust á þeirri uppskeru. Þá væri hægt að vinna að því að byggja upp réttlátt þjóðfélag á næsta kjörtímabili.