Mikill sparnaður í þunglyndislyfjum

Lyfjakostnaður ríkisins lækkaði á árinu 2010.
Lyfjakostnaður ríkisins lækkaði á árinu 2010. mbl.is/Sverrir

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna tauga- og geðlyfja varð 275 milljónum kr. minni á árinu 2010 en á árinu á undan. Einkum stafar þetta af minni kostnaði við notkun þunglyndislyfja.

Fram kemur í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, að heildarkostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna tauga- og geðlyfja var 3.685 milljónir kr. á árinu 2010. Er það 275 milljónum kr. minna en á árinu á undan. Á árinu 2009 varð kostnaðurinn sá mesti um árabil og hafði tvöfaldast að krónutölu frá árunum 2005 og 2006.

Verð flestra lyfja fylgir gengi íslensku krónunnar og hefur það haft mikil áhrif á lyfjakostnaðinn. Samningar, breytt notkunarmynstur sem verður meðal annars vegna breyttrar greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga, og breytt starfsemi stofnana hafa einnig áhrif á kostnaðinn.

Þá er tekið fram í svarinu að þessar tölur nái aðeins til lyfja sem afgreidd eru gegn lyfseðli úr apótekum en ekki lausasölulyfja.

Litlar breytingar eru í flestum lyfjaflokkum milli áranna 2009 og 2010, samkvæmt svari velferðarráðherra. Það sker sig þó úr að kostnaður við þunglyndislyf lækkar úr 1093 milljónum í 728 milljónir. Kostnaðurinn minnkar því um 350 milljónir.

Á móti kemur fram að aukning er í örvandi lyfjum, lyfjum sem notuð eru við ADHD og lyfjum sem efla heilastarfsemi. Sá kostnaðar eykst úr 644 milljónum í 728 milljónir.

Sömuleiðis eru litlar breytingar á lyfjakostnaði hjá Landspítala og völdum sjúkrastofnunum. Kostnaður þeirra lækkaði heldur á árinu 2010, ekki síst vegna svæfingar- og deyfingarlyfja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka