Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi samgönguráðherra, styður ekki samgönguáætlun sem lögð var fyrir Alþingi. Kemur þetta fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Norðfjarðargöng eru ekki á dagskrá fyrr en á öðru tímabili langtímaáætlunar í samgöngumálum. Kristján segist ekki styðja samgönguáætlun sem feli það í sér að umferð verði áfram beint upp í Oddsskarð milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Reiknar hann með því að lagðar verði til breytingar á samgönguáætlun til að flýta jarðgangagerð.
,,Þetta er einn hættulegasti vegur yfir að fara og það er löngu búið að lofa nýjum göngum í staðinn fyrir Oddskarðsgöng sem eru stórhættuleg," segir Kristján, við RÚV.
Hann segir stórframkvæmdir á meginleiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu fyrir allt að 40 milljarða króna, sem átti að fá að láni frá lífeyrissjóðum, nú taka fé frá öðrum framkvæmdum.