Þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað beiðni um að haldinn verði fundur í utanríkismálanefnd um fyrirsvar Icesave-málsins. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, krefst þess í bréfi til nefndarmanna að fundurinn verði haldinn á morgun.
Beiðni um fund kom fyrst fram 9. desember, þá 12. desember og loks bókuð 14. desember.
Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ákvað 14. desember að stefna íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum vegna meintra brota gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem Ísland er aðili að, vegna Icesave-deilunnar við bresk og hollensk stjórnvöld.
Gunnar Bragi segir að síðan þá hafi beiðnin verið ítrekuð með tölvupósti til formanns nefndarinnar. Hann tekur það fram að fleiri þingmenn í utanríkisnefnd hafi lýst yfir stuðningi við beiðni um fund, þegar hún kom fram.
Hann telur að ráða megi af þingsköpum að formanni beri að boða til þessa fundar. Hann rökstyður það í fyrsta lagi með því að benda á að málið falli undir málefnasvið utanríkismálanefndar. Í öðru lagi vilji fjórðungur nefndarmanna halda fund. Í þriðja lagi hafi ekki komið viðhlítandi skýring á því hvers vegna ekki var orðið við beiðninni. Og í fjórða lagi sé um meiriháttar utanríkismál að ræða sem ávallt þurfi að bera undir nefndina.