„Árni Páll hefur gert þetta vel“

Reuters

„Það hefur verið sjónarmið okkar í stjórnarandstöðunni, og fleiri sem hafa haft mikinn áhuga á þessu Icesave-máli í langan tíma, að það hafi verið haldið vel á þessu máli af hálfu Árna Páls Árnasonar [efnahagsráðherra],“ segir Ólöf Nordal, þingkona Sjálfstæðisflokksins.

Hún er á meðal þeirra þingmanna í utanríkismálanefnd Alþingis sem vilja beina því til stjórnvalda að fyrirsvar í dómsmálum og öðru sem snúi að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum verði áfram í höndum Árna Páls.  Þetta kemur fram í bókun sem minnihluti nefndarinnar samþykkti, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG, eftir fund nefndarinnar í kvöld.

Ólöf segir að það sé ekki þörf á að gera breytingar, þ.e. að málið fari í hendur utanríkisráðherra. Hún bendir á að það hafi verið sæmileg ró í kringum Icesave-málið að undanförnu. Jafnvel þeir sem hafi haft mestar áhyggjur af stöðu málsins, séu nokkuð rólegir yfir því hvernig Árni Páll hafi tekið á því.

„Það virðist vera skoðun margra að það þurfi að flytja fyrirsvar málsins, eða það sé í raun og veru komið til utanríkisráðherrans, út af stjórnskipulegri stöðu þess ráðuneytis,“ segir Ólöf.

„Árni Páll hefur gert þetta vel. Það má segja sem svo að hann hafi áunnið sér víðtækt traust,“ segir hún og bætir við að með þessu sé ekki verið að kasta rýrð á nokkurn mann. Menn spyrji einfaldlega hvers vegna eigi að gera breytingar nú.

„Nú tekur næsti fasi við [í Icesave-málinu]. Við vissum alltaf að þetta gæti gerst, það kemur engum á óvart að þessi staða sé uppi. Það var í því ljósi sem þessi bókun var lögð fram,“ segir hún.

Icesave verði í höndum Árna Páls

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert