Brot á kjarasamningum

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Áfram er gert ráð fyrir því að bætur almannatrygginga hækki aðeins um 3,5% um áramótin í stað 6,5% og er það brot á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð kjarasamninganna, segir í forsetabréfi Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.

„Málið er einnig alvarlegt vegna markmiða kjarasamninga um að jafna lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Mikill ágreiningur hefur verið um málið milli aðila, en í viðræðum við velferðarráðherra hefur komið fram skilningur á þeirri ábyrgð sem stjórnvöld bera á því að almennt launafólk hafi of lítinn ávinning af því að hafa greitt 10-12% tekna sinna í lífeyrissjóð vegna umfangs tekjutenginga almannatryggingakerfisins.

Því hefur komið fram vilji til þess að leysa þessa deilu í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun almannatryggingakerfisins, m.a. með því að skoða leiðir til þess að það sem á vanti í hækkun bóta almannatrygginga komi fram sem hækkun á frítekjumarki vegna greiðslu úr lífeyrissjóðum (sem nú er aðeins 10.000 kr.) Er það í samræmi við stefnu Alþýðusambandsins, en þetta frítekjumark þyrfti að vera um 70 þús.kr. á mánuði. Gera má ráð fyrir talsverðum kostnaði af þessu fyrir ríkissjóð, þannig að ef samkomulag næst er líklegt að það þurfi að koma í áföngum á næstu árum. Vegna tengsla við yfirlýsingu ríkisstjórnar og forsendubrest í kjarasamningum þarf að leiða þetta mál til lykta fyrir 20. janúar nk.," segir í bréfi forseta ASÍ.

Þar kemur einnig fram að áfram er gert ráð fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki aðeins um 3,5% og er það brot á þeim fyrirheitum sem gefin voru við gerð kjarasamninganna og raskar forsendum þessara samninga.

Í viðræðum við velferðarráðherra hefur komið fram skilningur á rökum okkar og vilji er til þess að endurskoða þessa ákvörðun í tengslum við endurskoðun kjarasamninganna í janúar 2012. Ekki liggja þó fyrir nein bein loforð um niðurstöðuna.

Jafnframt er forseti ASÍ ekki sáttur við auknar álögur á lífeyrissjóðina og atlögu að réttindum félagsmanna sinna og í svarbréfi til forsætisráðherra og fjármálaráðherra hefur forseti ASÍ áskilið samtökunum allan rétt til þess að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort þessi lagasetning standist jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert