Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrverandi alþingismanns, um að bætt verði fleiri ummælum inn í meiðyrðamál hans á hendur Teiti Atlasyni bloggara. Úrskurður þess efnis var kveðinn upp í morgun.
Meiðyrðamálið komst í hámæli í byrjun mánaðar þegar Gunnlaugur birti yfirlýsingu í fjölmiðlum þar sem fram kom að hann hefði sent Teiti nafnlaus smáskilaboð. Auk þess baðst Gunnlaugur afsökunar á sendingunum.
Málið hófst hins vegar eftir að Teitur birti bloggfærslu í febrúar sl. um Gunnlaug og umsvif hans í viðskiptalífinu.
Eftir að málið var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fór Gunnlaugur fram á að hann fengi að bæta við stefnuna fleiri ummælum Teits. Lögmaður Teits, Sigríður Rut Júlíusdóttir, gerði þá kröfu að stefna þyrfti nýju ummælunum í nýju máli. Kröfu Sigríðar var svo í morgun hafnað.