„Nýting auðlinda hafsins hefur reynst nauðsynlegur þáttur í tilveru okkar,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í lauslegri þýðingu í samtali við USA Today, útbreiddasta dagblað Bandaríkjanna.
Forsetinn segir þá þversögn uppi í málflutningi Bandaríkjastjórnar í hvalveiðimálum að á sama tíma og hún leggist gegn hvalveiðum heimili hún frumbyggjum í Alaska að veiða grænlandshval.
Þá benti forsetinn á að hvalkjöt hefði verið á borðum Íslendinga í áratugi og væri því í senn auðlind og hluti af matarmenningu þjóðarinnar.
Það var blaðakonan Laura Bly sem heimsótti Ísland nýverið og snæddi þá meðal annars hrefnu á Grillmarkaðnum við Lækjargötu. Fyllti sá málsverður hana sektarkennd, í ljósi þess hversu hvalveiðar eru umdeildar.
Bly hitti forsetann og Dorrit Moussaieff einnig að máli og var við það tilefni boðið upp á þorskslifur í útfærslu forsetafrúarinnar. Fylgir ekki sögunni hver uppskriftin var.
Grein USA Today má nálgast hér.