Icesave verði í höndum Árna Páls

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í utanríkismálanefnd Alþingis, auk Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, beina því til ríkisstjórnarinnar að fyrirsvar í dómsmálum og öðru sem snúi að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum sé áfram í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra.

Er þetta ósk meirihluta utanríkismálafndar þingsins, eða fimm þingmanna af níu.

Þetta kemur fram í bókun sem var samþykkt eftir fund nefndarinnar sem fram fór í kvöld. Hún er svohljóðandi:

„Undirrituð fulltrúar í utanríkismálanefnd alþingis beinum því til ríkisstjórnarinnar að fyrirsvar í dómsmálum og öðru því sem snýr að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum sé áfram í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra. Ýmis fordæmi eru fyrir þeirri tilhögun að fagráðherra fari með fyrirsvar í tilteknum milliríkjamálum og eðlilegt er að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi áfram samráð um allar ákvarðanir í málinu við utanríkismálanefnd Alþingis. Þá hlýtur að teljast æskilegt að úrvinnsla Icesave sé ekki á sömu hendi og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ljósi forsögu málsins er mikilvægt að aðkoma að málinu byggi á raunverulegu samráði allra flokka á Alþingi og að sem víðtækust sátt ríki um málsmeðferðina í samfélaginu.“

Undir hana skrifa þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka