Kallaði á annað Perluútboð

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur að lögfræðingar kunni að úrskurða að efna þurfi aftur til útboðs á Perlunni fari svo að heimilað verði að reisa mannvirki við hlið hennar. Jafnframt sé nauðsynlegt að samþykkja breytingar á deiluskipulagi áður en slíkar framkvæmdir geti hafist.

„Framkvæmdirnar eiga eftir að fara í gegnum lögboðið skipulagsferli. Sjálfur tel ég vert að skoða hugmyndir um að nýta Perluna betur og jafnvel að reisa þar einhver viðbótarmannvirki í þágu Reykvíkinga og efla jafnframt ferðaþjónustu í borginni.

Vanda þarf vel til slíkrar skoðunar og ná víðtækri sátt um niðurstöðuna enda er Öskjuhlíð eitt helsta útivistarsvæði Reykvíkinga og allt að því heilagt í hugum margra.

Þess vegna er mikilvægt að vanda vel til þessarar vinnu en það hefur ekki verið gert fram að þessu, sem sést best á því að fyrst í dag fékk stjórn Orkuveitunnar upplýsingar um einstök tilboð og í tæpan mánuð hefur fyrirtækið unnið að málinu í samstarfi við einn bjóðanda án þess að stjórn fyrirtækisins hefði hugmynd um það.“

Uppbygging var ekki heimiluð

Kjartan heldur áfram.

„Á sínum tíma var tekin ákvörðun um að setja Perluna á sölulista og kalla þannig eftir tilboðum og hugmyndum frá einkaframtakinu um það hvernig mætti nýta þessi mannvirki betur. Það var hins ekki samþykkt að leyfa uppbyggingu á reitnum.

Í mínum huga er því nokkuð ljóst að ef sú ákvörðun verður tekin, að í lagi sé að reisa margra hæða hótelbyggingu við hliðina á Perlunni, þurfi að skoða þann möguleika að efna til annars útboðs enda er þá hugmyndin orðin allt önnur en í upphafi.

Líklegt er að ef einn aðili fær að reisa hótel á svæðinu á grundvelli núverandi sölulýsingar muni aðrir kvarta og benda á að leyfið sé ekki hluti af útboðinu á Perlunni. Mér finnst líklegt að lögfræðingar kæmust að þeirri niðurstöðu að þá þyrfti að fara í annað útboð.“

Upplýstu ekki stjórnina

Kjartan gagnrýnir harðlega að stjórn OR skyldi ekki vera upplýst um að yfirmenn fyrirtækisins skrifuðu undir viljayfirlýsingu til hæstbjóðenda.

„Þessi vinnubrögð eru forkastanleg. Yfirmenn fyrirtækisins ganga fram hjá stjórn þess og láta ógert að upplýsa að viljayfirlýsing vegna útboðsins hafi verið undirrituð fyrir tæpum mánuði,“ segir Kjartan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert