Óvíst um forræði í Icesave

Mikil ólga er nú innan utanríkismálanefndar vegna óvissu um hvaða ráðherra muni hafa yfirvofandi dómsmál vegna Icesave-deilunnar á sinni könnu. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur haldið utan um málið frá því að síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fór fram í vor og framhaldsmenntun Árna Páls er einmitt á sviði Evrópuréttar.

Að undanförnu hefur þó verið mikið rætt um framtíð hans innan ríkisstjórnarinnar og jafnvel gert ráð fyrir því að hann muni hverfa þaðan í þeim breytingum sem yfirvofandi eru þar. Mikil ánægja hefur þó verið með hans störf í Icesave-deilunni og því eru nefndarmenn uggandi yfir því að málið færist aftur inn á borð hjá utanríkis- og fjármálaráðherra. En fréttastofa hefur heimildir fyrir því að það gæti gerst á næstu dögum og jafnvel áður en utanríkismálanefnd nái að funda um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert