Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps áætlar að sveitarfélagið skili 6,1 milljónar króna hagnaði á næsta ári. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.
Tekjur samstæðureiknings Súðavíkurhrepps, A og B hluta, eru áætlaðar 212,5 milljónir króna og útgjöld eru áætluð 189,7 milljónir króna. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur eru áætlaðar 4,3 milljónir króna og afskriftir samstæðureiknings eru áætlaðar 12,3 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta er því áætluð jákvæð um 6,1 milljón króna. Áætlað er að framkvæma fyrir 7,7 milljónir á næsta ári. Helstu verkefni eru lóðaframkvæmdir við Eyrardalsbæinn sem hýsir Melrakkasetrið, göngustígagerð og vegaklæðning út á suðurgarð. Allar þessar framkvæmdir verða fjármagnaðar af eigin fé.
Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir í samtali við vef Bæjarins Besta að þetta sé mikill viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins og að þetta verði að teljast til tíðinda í því árferði sem er í dag. „Við fórum í algera naflaskoðun árið 2009 og við höfum haldið okkur við þær línur sem við settum okkur þá, þetta er mest afrakstur af þeirri vinnu. Við erum búin að skera mikið af útgjöldum sveitarfélagsins án þess að það bitnaði á þeirri þjónustu sem við veitum,“ segir Ómar.