Stóriðja kalli á vegabætur

Úr Kjálkafirði. Gísli tekur þennan veg dæmi um að brýn …
Úr Kjálkafirði. Gísli tekur þennan veg dæmi um að brýn þörf hafi skapast fyrir vegabætur á Vestfjörðum. Ljósmynd/Gísli Ásgeirsson

Gera þarf miklar vegabætur við Arnarfjörð á Vestfjörðum ef raunhæft á að vera að byggja þar upp „vestfirska stóriðju“ með fiskeldi, að mati flutningabílstjórans Gísla Ásgeirssonar sem á þar reglulega leið um.

„Þingmenn eiga ekki að auglýsa stóriðju á Vestfjörðum þegar það er ekki fært þangað,“ segir Gísli og vísar til viðtals mbl.is við Kristján Möller þingmann í dag en nánar er vikið að því hér fyrir neðan. „Að sjálfsögðu styð ég alla atvinnuppbyggingu á Vestfjörðum en áður en ráðist er í frekari uppbyggingu verður að tryggja að samgöngur séu greiðar og öruggar í landshlutanum. Annars eru markmið um stóriðju óraunhæf.“

Að sögn Gísla er samgöngum þannig háttað á svæðinu að vegir eru lítið saltaðir eða hálkuvarðir á vetrum. Þá séu ekki nógu mörg vegrið til að tryggja öryggi vegfarenda. Ennfremur séu vegir á suðurleiðinni, frá Patreksfirði til Reykjavíkur, ekki ruddir á laugardögum. 

„Metnaðarfull áform“

Eins og sagt var frá á fréttavef Morgunblaðsins í dag telur Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hægt að skapa allt að 50 störf í fiskeldi í firðinum.

Fyrirtækið Arnarlax er á bak við umrædd áform. „Þetta eru að mínu mati mjög metnaðarfull áform, sannkölluð vestfirsk stóriðja,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is í dag. „Þarna á að vera 3.000 tonna eldi, sem þýðir um 1.500 tonn af frystum afurðum.“

Var jafnframt haft eftir Kristjáni að málið væri nú í umsagnarferli. Fleiri aðilar hefðu lýst yfir áhuga á laxeldi í Arnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert