Ákæra sérstaks saksóknara á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundi Hjaltasyni, fv. framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs sama banka, var birt eftir hádegið. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með tíu milljarða króna lánveitingu til Milestone ehf., í formi peningamarkaðsláns.
Í ákærunni segir að um sé að ræða umboðssvik. Lárus og Guðmundur hafi sem meðlimir í áhættunefnd bankans veitt lánið, upp á 102.162.470,12 evrur, án trygginga eða ábyrgða og andstætt almennum reglum Glitnis um lánveitingar og markaðsáhættu um hámark heildarlánveitinga til einstaks aðila og aðila honum tengdum. Þeir hafi samþykkt lánveitinguna utan funda áhættunefndar og ritað undir lánssamninginn fyrir hönd Glitnis.
Lánið var veitt 8. febrúar 2008 og átti að greiða í einu lagi þremur dögum síðar ásamt 7,55% ársvöxtum.
Lánsfjárhæðinni var ráðstafað inn á evrureikning Milestone og ráðstafaði Milestone andvirði lánsins til greiðslu á láni Þáttar International hjá Morgan Stanley-bankanum sem hafði verið gjaldfellt og þurfti að greiða fyrir kl. 15 hinn 8. febrúar. Þáttur var einkahlutafélag innan Milestone-samstæðunnar.
Þá segir í ákærunni að 12. febrúar 2008 hafi Glitnir millifært fjárhæðina inn á bankareikning Milestone hjá bankanum og síðar sama daga hafi bankinn millifært sömu upphæð til baka. „Um var að ræða andvirði láns sem Glitnir banki hf. veitti Vafningi ehf. [...] án trygginga, en lánið var 103.718.244 evrur að meðtöldum lántökukostnaði. Hinn 29. febrúar 2008 greiddi Svartháfur ehf. [...] til Vafnings 50 milljónir evra, sem voru fjármunir sem félagið fékk að láni frá Glitni banka hf. sama dag og var fjárhæðin færð til lækkunar á láni bankans til Vafnings frá 12. febrúar 2008.“
Eftirstöðvarnar af láninu hafa ekki verið endurheimtar. „Þeirri stórfelldu fjártjónshættu sem ákærðu sköpuðu Glitni banka hf. með lánveitingunni 8. febrúar 2009 var því ekki afstýrt með þeirri ráðstöfun að færa skuldbindinguna yfir á vafning 12. febrúar 2008.“