Vont að sitja undir dylgjum

Búslóðin var flutt til Bandaríkjanna í apríl sl. Myndin er …
Búslóðin var flutt til Bandaríkjanna í apríl sl. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ómar

„Það er sárt að missa eigur sínar. Ekki bætir úr að þurfa að sitja undir alls konar dylgjum, hálfkveðnum vísum og jafnvel hreinum ásökunum í opinberri umræðu,“ segir í yfirlýsingu sem Skafti Jónsson, sendiráðunautur við sendiráð Íslands í Washington, og Kristín Þorsteinsdóttir, eiginkona hans, hafa sent frá sér.

Þau segja að nánast allar eigur sínar, aðrar en fasteign, hafi eyðilagst í flutningi frá Íslandi til  Bandaríkjanna í apríl sl. Fram kemur í yfirlýsingunni að utanríkisráðuneytinu hafi verið vel kunnugt um verðmæti búslóðarinnar.

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að á grundvelli mats hafi búslóðin verið bætt af ríkinu fyrir 75 milljónir króna samkvæmt aukafjárlögum sem samþykkt voru fyrir skemmstu.

Yfirlýsingin er svohljóðandi

„Við hjónin urðum fyrir því að nánast allar eigur okkar aðrar en fasteign eyðilögðust í flutningi til Bandaríkjanna í apríl í vor. Þar á meðal var safn nútímalistaverka, sem hefur tekið okkur tæpa þrjá áratugi að byggja upp, og var um margt einstakt. Undirstaða safnsins voru verk frá fyrri hluta síðustu aldar, sem Kristín erfði frá foreldrum sínum.  Við teljum okkur hafa haldið vel á spöðunum og vorum stolt af safninu okkar.

Einnig fóru húsgögn, húsbúnaður, fatnaður, mikið safn áritaðra listaverkabóka og aðrir persónulegir munir sem aldrei verða bættir eins og myndir af látnu fólki og fjölskyldualbúm frá tíma sem aldrei kemur aftur.  

Við mat á tjóni okkar var einungis litið til þess sem við gátum tilgreint og metið til fjár.  Eðli máls samkvæmt er margt í búslóð sem ekki er hægt að setja verðmiða á. Slíkt er ekki bætt þótt tilfinningagildið sé mikið fyrir okkur.

Verðmatið var í öllum tilvikum rökstutt. Ríkið kallaði til sérfræðinga sem yfirfóru matið á tjóninu og gengu úr skugga um að forsendur væru réttar. Þessi skoðun tók nokkra mánuði.  Ríkið fól svo virtum hæstaréttarlögmanni að annast bótauppgjörið af sinni hálfu.

Hlutlaus matsmaður tryggingafélaga var viðstaddur allan tímann, þegar gámurinn var tæmdur.  Hann mat hvert einasta stykki fyrir sig og tilfellið er, að langflestu var hent þegar í stað, þar á meðal öllum húsgögnum, öllum fötum, öllum bókum og megninu af listaverkunum. 

Það litla sem eftir stóð var afhent sérhæfðu amerísku fyrirtæki, sem fór yfir, dæmdi flest ónýtt en taldi að gera mætti við einstaka verk, en með ærnum tilkostnaði.

Í umfjöllun um þetta mál þarf að hafa í huga að gámurinn hafði ekki einvörðungu fyllst af sjó og innihaldið velkst í honum dögum saman í stórsjó í Norður-Atlantshafi, heldur stóð hann á bryggju í 11 daga í hitabylgju, sem gekk yfir austurstönd Bandaríkjanna, áður en heimild fékkst til þess að rjúfa innsigli og opna hann.

Allt myglaði sem myglað gat og fýlan sem gaus upp þegar gámurinn var opnaður var slík að verkamennirnir, sem tæmdu gáminn settu upp sóttvarnargrímur. Svo notuðu þeir skóflur til að moka út.

Við höfum öll rétt á að hafa skoðun á því hvernig ríkið heldur á sínum tryggingamálum. Í þeim efnum er hægt að tína til alls kyns rök. Hins vegar er veruleikinn sá, að vinnuveitandi Skafta tók að sér að flytja búslóð okkar á sína ábyrgð og sinn kostnað til nýrrar starfsstöðvar. Ríkið tryggir sig sjálft og við gátum því treyst því, að búslóð okkar væri að fullu tryggð. Ráðuneytinu var vel kunnugt um verðmæti hennar.

Það er sárt að missa eigur sínar. Ekki bætir úr að þurfa að sitja undir alls konar dylgjum, hálfkveðnum vísum og jafnvel hreinum ásökunum í opinberri umræðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert