21.000 af vinnumarkaði

Raunatvinnuleysi á Íslandi sl. þrjú ár.
Raunatvinnuleysi á Íslandi sl. þrjú ár. mbl.is

Raunatvinnuleysi hefur ekki minnkað sl. þrjú ár að mati ASÍ. „21 þúsund störf hafa horfið af vinnumarkaðnum og þau hafa ekki birst aftur,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Morgunblaðið.

Í grein sem Gylfi skrifar í fréttabréf sambandsins í gær er bent á að atvinnuþátttakan hafi minnkað á seinustu fimm árum sem nemur um 3% af vinnuaflinu. „Þetta þýðir að um 5.000 manns hafa hætt þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, farið í nám, hætt að vinna með námi, heimavinnandi o.s.frv.,“ segir þar.

Í fréttaskýringu um atvinnumálin í Morgunblaðinu í dag segir, að þegar bornar eru saman tölur um fækkun skráðra atvinnulausra, samdrátt í atvinnuþátttöku Íslendinga frá 2008 og uppsafnaðan fjölda brottfluttra umfram aðflutta kemur í ljós „að á móti fækkun þeirra sem eru skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun hefur fjöldi þeirra sem yfirgefið hafa landið vaxið umtalsvert. Ef við bætum þeim við sem hættu þátttöku á vinnumarkaði nemur þessi fjöldi samtals ríflega 21.000 manns eða tæplega 12% af vinnuaflinu,“ segir í grein forseta Alþýðusambands Íslands.

Gylfi segir við Morgunblaðið að glíman við ríkisfjármálin hafi átt alla athygli stjórnvalda. Þar hafi árangur náðst en þessar tölur sýni að enginn árangur hafi náðst í atvinnusköpun. Því þurfi að leggja áherslu á að auka hagvöxtinn til að skapa störf. „Þar finnst mér mikið á skorta,“ segir Gylfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert