Raunatvinnuleysi hefur ekki minnkað sl. þrjú ár að mati ASÍ. „21 þúsund störf hafa horfið af vinnumarkaðnum og þau hafa ekki birst aftur,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Morgunblaðið.
Í grein sem Gylfi skrifar í fréttabréf sambandsins í gær er bent á að atvinnuþátttakan hafi minnkað á seinustu fimm árum sem nemur um 3% af vinnuaflinu. „Þetta þýðir að um 5.000 manns hafa hætt þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, farið í nám, hætt að vinna með námi, heimavinnandi o.s.frv.,“ segir þar.
Í fréttaskýringu um atvinnumálin í Morgunblaðinu í dag segir, að þegar bornar eru saman tölur um fækkun skráðra atvinnulausra, samdrátt í atvinnuþátttöku Íslendinga frá 2008 og uppsafnaðan fjölda brottfluttra umfram aðflutta kemur í ljós „að á móti fækkun þeirra sem eru skráðir atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun hefur fjöldi þeirra sem yfirgefið hafa landið vaxið umtalsvert. Ef við bætum þeim við sem hættu þátttöku á vinnumarkaði nemur þessi fjöldi samtals ríflega 21.000 manns eða tæplega 12% af vinnuaflinu,“ segir í grein forseta Alþýðusambands Íslands.
Gylfi segir við Morgunblaðið að glíman við ríkisfjármálin hafi átt alla athygli stjórnvalda. Þar hafi árangur náðst en þessar tölur sýni að enginn árangur hafi náðst í atvinnusköpun. Því þurfi að leggja áherslu á að auka hagvöxtinn til að skapa störf. „Þar finnst mér mikið á skorta,“ segir Gylfi.