Fréttaskýring: Baráttan um reykingar í kvikmyndum

Ari Kristinsson
Ari Kristinsson Árni Sæberg

Tóbaksfyrirtæki hafa frá 1990 lagt aukinn þunga á að ná til ungs fólks í gegnum kvikmyndir og tónlistarmyndbönd. Þetta var gert í kjölfar þess að baráttan um skaðsemi reykinga tapaðist af hálfu tóbaksfyrirtækja. Þess vegna stendur baráttan núna um kvikmyndirnar, sagði Þórólfur Þórlindsson, prófessor við Háskóla Íslands, á fundi um reykingar í kvikmyndum í dag.

Í hádeginu í dag voru kynntar niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar um áhrif reykinga í kvikmyndum en undanfarin tvö ár hefur Landlæknaembættið fyrir hönd Íslands unnið að rannsókn á áhrifum reykinga í kvikmyndum á evrópsk börn og unglinga. Ísland er eitt sex Evrópuríkja sem tók þátt í rannsókninni en auk Íslands tóku Ítalía, Holland, Þýskaland, Skotland og Pólland þátt.

Stefán Hrafn Jónsson, lektor við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar en fram kemur í rannsókninni að reykingar í kvikmyndum hafa áhrif á hvort börn byrji að reykja eða ekki.

„Erlendar rannsóknir hafa sýnt samskonar niðurstöðu og því er þessi rannsókn okkar sem náði til 2168 barna í 20 skólum staðfesting á því sem sýnt hefur verið fram á annars staðar og okkur grunað að ætti við hér á landi,“ segir Stefán.

Alls voru til skoðunar 655 kvikmyndir en í rannsókninni kemur fram að í 250 vinsælustu kvikmyndunum eru alls 5.828 reykingaratriði eða að meðaltali 23 atriði í hverri kvikmynd. Íslenskir unglingar höfðu að jafnaði séð 1.731 reykingaratriði í kvikmyndum sem er töluvert meira en gengur og gerist í hinum löndunum sem tóku þátt í rannsókninni. Þýsk börn og unglingar höfðu séð fæst atriði eða 864 en pólsk flest eða 1.773 atriði.

Þrátt fyrir þetta eru reykingar meðal barna og unglinga á Íslandi með minnsta móti. Aðeins 9 prósent barna í sjöunda, áttunda og níunda bekk hafa prófað að reykja meðan 42 prósent jafnaldra þeirra í Póllandi hefur prófað að reykja. Í heildarúttekt allra landanna kemur fram að 29 prósent barna og unglinga hafa prófað að reykja og er Ísland því langt undir meðaltalinu.

„Sá góði árangur sem náðst hefur hér á landi má þakka fjölbreyttu forvarnarstarfi og samstarfi margra aðila. Það er öflugt forvarnarstarf í skólum, íþróttafélögum, frjálsum félagasamtökum, heilbrigðisstofnunum og hjá öðrum aðilum.“

 Reykfylltar íslenskar kvikmyndir

Í framsögu Sólveigar Karlsdóttur, verkefnastjóra hjá embætti landlæknis, kom fram að af þeim 16 íslensku kvikmyndum sem skoðaðar voru var reykingaratriði í 15 þeirra. Flest reykingaratriði voru í myndunum Brúðguminn og Veðramót.

Stefán Hrafn bendir á að erlendis hafi menn helst rætt tvær leiðir sem fara mætti til að draga úr reykingum í kvikmyndum.

„Annars vegar er rætt um að setja reykingar í kvikmyndum inn sem eitt af þeim viðmiðum sem unnið er út frá þegar ákveðið er aldurstakmark á myndum og hins vegar hvort æskilegt sé að opinberu fé sé varið í kvikmyndir sem hafa skaðleg áhrif á velferð barna.“

Ari Kristinsson, kvikmyndagerðarmaður, telur ekki æskilegt eða heppilegt að takmarka eða banna reykingar í kvikmyndum.

„Kvikmyndir verða að endurspegla það umhverfi sem við lifum í og ef við förum að falsa það umhverfi þá er það upphafið að einhverri blekkingu sem er kvikmyndum ekki til framdráttar. Hvað kemur næst ef við förum að draga úr eða banna reykingar. Verður öll hegðun sem ekki er æskileg tekin úr kvikmyndum. Þá er þetta farið að minna svolítið á það sem átti sér stað í Sovétríkjunum,“ segir Ari.

Að mati Ara forðast kvikmyndaleikstjórar að hafa reykingaratriði í barnamyndum og sjálfur segist hann ekki vera hlynntur reykingum í kvikmyndum og forðist að sýna reykingafólk í þeim eins og hann getur.

„Það hjálpar ekki persónusköpun að láta persónu vera með sígarettur en það er oft óhjákvæmilegt t.d. þegar myndir eða þættir eru unnir upp úr bókum þar sem persónan hefur verið sköpuð. Þá eru margir þættir eins og Mad Men sem gerast á tíma eða við aðstæður þar sem reykingar eru algengar. Bann eða takmörkun við slíkar aðstæður er þá upphafið að einhvers konar ritskoðun sem gerðu þætti og kvikmyndir ótrúverðugar.“

Stefán Hrafn Jónsson
Stefán Hrafn Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert