Nokkrir borgarar gerðu borgaralega handtöku á mótum Hofsvallagötu og Hringbrautar síðdegis í Reykjavík í dag þegar ölvaður maður ók bíl sínum á annan bíl og skemmdi. Viðstaddir borgarar héldu manninum föngnum þar til lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók hann höndum.
Maðurinn er hálfsextugur. Hann er nú í haldi lögreglunnar.
Málið er óvenjulegt enda ekki á hverjum degi sem almennir borgarar skerast í leikinn með þessum hætti.
Lögreglan segir augljóst að margir séu taugaspenntir í umferðinni og hvetur því ökumenn til að sýna fyllstu varúð í jólaösinni.