Enginn bilbugur á saksóknara

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Ómar óskarsson

Saksóknarnefnd Alþingis fundaði eftir hádegið í dag og lauk fundi fyrir rúmum hálftíma síðan. Rætt var um málið gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi, að sögn Margrétar Tryggvadóttur, varaformanns nefndarinnar.

Á fundinn mættu þau Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari og Helgi Magnús Gunnarsson varasaksóknari Alþingis, en ásamt nefndarmönnum sat Þórhallur Vilhjálmsson, yfirlögfræðingur Alþingis, fundinn.

Margrét segir að farið hafi verið yfir gang málsins almennt og skipst á upplýsingum við saksóknara. Tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um niðurfellingu ákærunnar, hafi ekki verið rædd á fundinum.

Almennt sagði Margrét að ekkert hefði breyst í málinu á fundinum, né heldur hefði verið neinn bilbug að finna á saksóknara, heldur fullur vilji hjá honum til að halda áfram með málið.

Uppfært kl. 15:40: Að sögn Atla Gíslasonar, formanns nefndarinnar, var tillaga um niðurfellingu ákærunnar gegn Geir Haarde tilefni fundarins og var saksóknari upplýstur á fundinum um þau gögn og þær umræður sem komið hafa fram á Alþingi vegna þeirrar tillögu. Atli tók þó skýrt fram að nefndin hefði ekki tekið neina efnislega afstöðu til tillögunnar á fundinum, heldur hefði hún aðeins verið að miðla upplýsingum um hana til saksóknara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert