Gott hljóð í kaupmönnum

Jólastemmning á Ingólfstorgi.
Jólastemmning á Ingólfstorgi. mbl.is/Golli

„Það er almennt gott hljóð í kaupmönnum, menn eru ánægðir með hvernig tekist hefur að gera miðborgina hlýlega og aðlaðandi, litríka og ljósprúða með þjóðlegum vættum á veggjum,“ segir Jakob Frímann Magnússon, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, um verslunina síðustu dagana fyrir jól.

Jakob Frímann segir að stemningin í miðbænum muni ná hámarki í Jólaþorpinu á Ingólfstorgi á Þorláksmessukvöld, þegar tenórarnir þrír munu hefja upp raust sína, þeir Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Gunnar Guðbjörnsson og Snorri Wium, við undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara.

„Til þessa höfum við verið heppnari með veður en oft áður, fólk laðast í bæinn og sumir kaupmenn segjast hafa átt sína bestu tíð í langan tíma. Þetta fer vissulega eftir svæðum, menn eru misvel í sveit settir hvað varðar staðsetningu en almennt er gott hljóð í kaupmönnum,“ segir Jakob en Laugaveginum verður lokað á hádegi á Þorláksmessu, frá Snorrabraut niður að Bankastræti, og þaðan eftir Austurstræti. Tilraun var gerð um síðustu helgi með lokun Laugavegarins og heppnaðist hún vel, að sögn Jakobs.

Verslanir í miðbænum, Smáralind, Kringlunni og fleiri verslunarmiðstöðvum hafa verið opnar til kl 22 frá síðasta fimmtudagskvöldi, eða viku seinna en í desember í fyrra. Jakob segir þetta hafa gefist vel, kvöldopnunin hafi byrjað of snemma í fyrra. Jólaþorpið á Ingólfstorgi hefur verið opið til kl. 20 og stundum lengur.

Tekur veðurspám með fyrirvara

Jakob Frímann kippir sér ekki upp við stormviðvörun og slæma veðurspá annað kvöld.

„Við höfum lært það á þessu ári að taka öllum veðurspám með fyrirvara. Sem betur fer hafa spárnar reynst of myrkar og hvassar og þegar á hefur reynt hefur yfirleitt verið mun hlýrra og bjartara en spámenn sögðu til um. Fyrir ári síðan var kalt í bænum og varla hundi út sigandi, en núna er stillt veður og gott þar sem ég stend í miðborginni,“ segir Jakob Frímann og bætir við: „Þeir sem kjósa að vera hérna þá er þetta líklega yndislegasti tími ársins og sá rómantískasti í Reykjavík.“

Ekki náðist í framkvæmdastjóra Kringlunnar og Smáralindar í kvöld, til að spyrja þá út í jólaverslunina.

Jakob Frímann við opnun Jólaþorpsins ásamt Jóni Gnarr borgarstjóra og …
Jakob Frímann við opnun Jólaþorpsins ásamt Jóni Gnarr borgarstjóra og fleirum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert