Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýna harðlega að hluti gistinga, s.s. gisting ferðafélaga á borð við Ferðafélag Íslands og Útvist, verði undanskilin gistináttaskatti sem leggst á frá og með áramótum. Mótmæla samtökin þessari „geðþóttaákvörðun“ sem gangi þvert á markmið laganna.
„Samtök ferðaþjónustunnar lögðu frá upphafi mikla áherslu á að ef þingmönnum væri alvara með að leggja á gistináttaskatt þá væri mikilvægt að hann yrði greiddur af allri gistingu,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
„Í fyrsta lagi voru gististaðirnir alls ekkert ánægðir með það að vera að fá á sig skatt,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF. „Við sáum mjög fljótt að þetta yrði illframkvæmanleg skattlagning,“ segir hún en í könnun á vegum samtakanna hafi komið í ljós að fjöldi gististaða væri ekki með tilskilin leyfi og greiddi því ekki skattinn.
„En síðan, þegar búið er að leggja þetta á gististaðina, koma þeir núna á síðustu mínútu og undanskilja beina samkeppnisaðila. Það þykir mönnum afar slæmt,“ segir Erna.
Erna segir undarlegt að þrátt fyrir að tekjur af gistináttaskattinum eigi að nota í uppbyggingu og verndun viðkvæmra staða á hálendinu, verði þeir sem þar gista undanþegnir skattinum á meðan allir sem dvelja í Reykjavík þurfi að greiða hann.
„Það sem við lögðum megináherslu á var að ef menn ætluðu að leggja þennan skatt á, þá myndu allir borga. En nú er verið að undanskilja þá sem eru með rekstur á hálendinu. Auðvitað er aldrei hægt að dreifa þessu þannig að þeir sem njóti hálendisins greiði einir þennan skatt en að undanskilja á síðustu stundu aðila sem eru í beinni samkeppni á þessum markaði er fáránlegt,“ segir Erna.