Sakar forsetann um lýðskrum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Árni Finnsson, formaður NSÍ.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Árni Finnsson, formaður NSÍ.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, fara með lýðskrum í hvalveiðimálum er hann telji veiðarnar hluta af auðlindanýtingu landsins. Þá rifjar Árni upp að sem þingmaður hafi Ólafur Ragnar lagst gegn hvalveiðum.

Haft var eftir Ólafi Ragnari í samtali við USA Today að hvalveiðar væru réttur Íslendinga og hvalkjöt hluti af matarmenningu þóðarinnar, líkt og rakið var á fréttavef Morgunblaðsins í gær.

Ólafur Ragnar var andvígur tillögunni

Árni bendir á afstöðu forsetans til hvalveiða fyrir hartnær tveim áratugum.

„Í febrúar 1983 undirritaði Ólafur Ragnar Grímsson álit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis sem lagðist gegn samþykkt þingsályktunartillögu Eiðs Guðnasonar þess efnis að Ísland skyldi mótmæla ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um stöðvun hvalveiða, eða commercial whaling eins og þær eru nefndar á ensku, frá og með árinu 1986.

Alþingi felldi þingsályktunartillögu Eiðs með eins atkvæðis meirihluta og Ísland var þar með bundið af ákvörðun Hvalveiðiráðsins. Nú þykir fræðimanninum Ólafi Ragnari Grímssyni henta að bera saman iðnaðarveiðar Kristjáns Loftssonar við frumbyggjaveiðar í Alaska,“ segir Árni og setur ummæli forsetans í samhengi við stöðu hans í lok fjórða kjörtímabilsins.

„Áður fyrri forðaðist Ólafur Ragnar að gefa út stórar yfirlýsingar um hvalveiðar enda ekki vænlegt til árangurs á alþjóðavettvangi þar sem hann vildi beita sér.

Nú má vera að forsetinn geri sér ekki vonir um frekari vegtyllur á alþjóðavettvangi og telji sér því óhætt að stunda smá lýðskrum af því tagi sem hérlendir stjórnmálamenn hafa löngum stundað í hvalveiðimálum. Minnugur þess að hvalveiðar eru bannaðar samkvæmt lögum Evrópusambandsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert